Fimmtudagur 8. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 8. tbl. 19. árg.

En hver borgar þá fyrir hæðirnar? Og reksturinn?
En hver borgar þá fyrir hæðirnar? Og reksturinn?

Það er lítið lát á ameríkaníseringu landans. Það nýjasta í þeim efnum er að reisa bókasafn sem kennt er við fyrrum forseta landsins. 

Í fyrirsögn fréttar Morgunblaðsins af málinu í fyrradag segir: „Mikið sjálfsaflafé leggur grunninn að húsi Vigdísar.“

Í fréttinni sjálfri kemur hins vegar fram að „fjölmargir aðilar, jafnt erlend sem innlend fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir og einstaklingar, leggja fjármuni til byggingarinnar auk Reykjavíkurborgar, ríkisins og Háskóla Íslands.“

Ætli sé til of mikils mælst að almenningur fái að vita hver hans hlutur í þessu máli verður? Er það bókstaflega rétt sem segir í fyrirsögn fréttarinnar að sjálfsaflafé dugi fyrir grunninum en nauðungargjöld af almenningi verði notuð í að reisa hæðirnar?

Menn hafa áður heyrt að opinberar byggingar séu „fullfjármagnaðar“ þegar farið er að stað. Svo þegar allt er stopp, tugir iðnaðarmanna verkefnalausir og byggingaplast og vinnupallar farin að fjúka af svæðinu koma ríkið og Reykjavíkurborg með meiri pening því ekki vilji menn að húsið standi svona eins og skemmd tönn engum til gagns.

Og svo er það reksturinn. Ætli nokkur þori að spyrja um hann fyrr en að ræstingafólkið og rafveitan senda fyrstu reikningana?