Miðvikudagur 7. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 7. tbl. 19. árg.

Virðingarvottur við Charlie Hebdo.
Virðingarvottur við Charlie Hebdo.

Með hryðuverkinu í París í morgun var reynt að hræða fólk um allan hinn vestræna heim frá því að nýta sér tjáningarfrelsi sitt á einhvern þann hátt sem hryðjuverkamönnunum og skoðanabræðrum þeirra er ekki að skapi.

Sjálfsagt mun það bera einhvern árangur, því hvað sem líður heitstrengingum stjórnmálamanna og ýmsum ágætum fyrstu viðbrögðum hugrakkra manna um álfuna, þá eru þeir auðvitað margir sem skiljanlega vilja ekki taka áhættuna af að kalla slík voðaverk yfir sig og sína.

Þótt fáir muni vilja gefa nein grundvallargildi sín eftir berum orðum, þá er slíkt oft fært í þann búning að menn verði að „sýna skilning“ á sjónarmiðum þeirra sem gera meiri og meiri kröfur í þá veru.

Eitt af því sem hryðjuverkið í París minnir á, er hin stórhættulega tilhneiging ofstækismanna til að taka sér með ofbeldi þann rétt sem þeir telja sig eiga. Ef þjóðfélagið er ekki tilbúið að veita réttinn, þá tökum við hann bara. Þeir hafa vitaskuld áttað sig á að franska ríkið var ekki tilbúið til að refsa teiknurum þessa tímarits með þeim hætti sem ofstækismönnunum fannst viðeigandi, og þá gerðu þeir það bara sjálfir.

Að því leyti svipar atburðunum í París til illvirkjanna sem framin voru í Noregi nýlega. Þar var maður nokkur búinn að sannfæra sig um hann mætti beita miskunnarlausu ofbeldi til að knýja fram stefnubreytingu hins opinbera í ákveðnum málaflokkum. Hann, eins og þeir í París, sannfærði sig um að einhver málstaður gæti réttlætt slíkt illvirki. Að hann mætti einfaldlega taka sér þann rétt sem þjóðfélagið veitti honum ekki.

Það er gríðarlega mikilvægt að berjast gegn þeirri hugsun.