Þriðjudagur 6. janúar 2014

Vefþjóðviljinn 6. tbl. 19. árg.

Þeir einu sem verða fyrir árlegum skerðingum í fjárlögum eru skattgreiðendur.
Þeir einu sem verða fyrir árlegum skerðingum í fjárlögum eru skattgreiðendur.

Hlýtur ekki „skerðingin“ að fara á verðlaunpall með „skjaldborginni“ og „leiðréttingunni“ þegar Íslandsmótinu í öfugmælum lýkur loks?

Nánast hver einasti ríkisstarfsmaður og þrýstihópur hefur á síðustu árum lýst í angist sinni þeim „skerðingum“ sem hann hefur „orðið fyrir.“

En nú er það óumdeilt að í lok hvers árs ákveður alþingi ekki aðeins hve mikla fjármuni stofnanir fá á næsta ári heldur einnig hvort þær fá yfirleitt nokkuð. Þetta er sjálfstæð ákvörðun fjárveitingarvaldsins á ári hverju. Á fjögurra ára fresti er jafnvel kosið nýtt þing á milli fjárlaga. Sá sem fékk eitthvað í fyrra er ekki þar með kominn í áskrift að fjármunum skattgreiðenda.

Af því leiðir að hver sem fjárveitingin er til hans er það hrein viðbót við það sem hann fékk síðast. Stofnun sem fékk 100 milljónir í fyrra en 90 á þessu ári er ekki að „lenda í skerðingu“ heldur að fá 90 milljónir. Fólkið sem fékk 1500 þúsund krónur á mánuði í fæðingarorlof um árið ber ekki skarðan hlut frá borði þótt það fái „aðeins“ 400 þúsund á mánuði með barni sem það eignast í dag. Þvert á móti væri það að fá 400 þúsund krónur af fjármunum skattgreiðenda með sérstökum lögum sem heita fjárlög.

Þeir einu sem verða fyrir skerðingu í fjárlögum ár eftir ár eru skattgreiðendur. Á hverju ári er það niðurstaða alþingis að taka stóran hluta af tekjum einstaklinga og einnig væna sneið af öllu sem þeir kaupa nema rafbílum og laxveiði.