Vefþjóðviljinn 4. tbl. 19. árg.
Nefnd á vegum Verkfræðingafélags Íslands skilaði ríkisstjórninni í vikunni tillögum að stefnumótun um rafbíla.
Að því ónefndu sem nefndin leggur til er ekki vanþörf á að ríkisstjórnin fái slíka leiðsögn því hún hefur látið lög vinstri stjórnarinnar um endurnýjanlega orkugjafa á bíla standa efnislega óbreytt frá því hún tók við völdum.
Eins og frægt er var lagafrumvarpið skrifað af Benedikt Stefánssyni, fyrrum aðstoðarmanni Gylfa Magnýssonar viðskiptaráðherra, sem þá var kominn í vinnu hjá Carbon Recycling International. Án þess að upplýsa um höfundinn lagði Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra frumvarpið svo fram á alþingi. Það var samþykkt án almennrar umræðu rétt fyrir þinglok vorið 2013.
Þegar lög eru sett af slíkri sérgæsku og með æðibunugangi er ekki von á góðu. Lögin hafa þegar leitt af sér um þúsund milljóna króna aukinn kostnað Íslendinga við innkaup á dýru erlendu lífeldsneyti, dýrara birgðahald og dreifingu og munu leiða til aukinnar eyðslu í bílvélum verði etanóli blandað saman við bensín.
En er ekki öruggt að lög um aukinn hluta endurnýjanlegrar orku ýta til að mynda undir notkun rafmagnsbíla? Nei þvert á móti, lögin setja íslenska rafmagnið skör lægra en til að mynda innflutt lífeldsneyti á borð við jurta-etanól eða repjuolíu. Ástæðan fyrir því að lögin leggja stein í götu rafmagnsbíla er einföld en jafnframt ótrúleg og til marks um þau óvönduðu vinnubrögð og spillingu sem einkenna málið allt. Rafmagnsbílar nýta orkuna svo vel! Og fyrir það þurfa þeir að gjalda samkvæmt lögunum.
Þannig nýtir bíll sem gengur fyrir rafmagni orkuna um nálægt 90% en bíll sem ekur um á etanóli, metanóli, metani eða lífolíu nýtir aðeins 25 – 30% orkunnar. Og þar sem lögin leggja allt kapp á að endurnýjanleg orka verði ákveðið hlutfall af heildarorkunotkun er ljóst að hver rafmagnsbíll vegur aðeins þriðjung á við bíl sem brennir svokölluðu lífeldsneyti. Rafmagnsbíllinn sóar minni orku en bíll sem knúinn er lífolíum og því er hann ekki eins þungur á metunum í heildarorkunotkun.
Til að ná markmiði laganna um að 10% orkunotkunar bílaflotans verði „endurnýjanleg“ orka þyrftu því 30% bílaflotans að skipta yfir á rafmagn. En þessum 10% mætti hins vegar ná með því að 10% bílanna skiptu yfir á innflutt lífeldsneyti. Lögin vinna beinlínis gegn því að innlendir orkugjafar á borð við rafmang séu notaðir.
Það telur ekkert fyrir seljendur eldsneytis þegar viðskiptavinur skiptir yfir á rafmagnsbíl. Nær allir viðskiptavinir bensínstöðva gætu skipt yfir á rafmagn án þess að bensínstöðin væri nokkru nær því að uppfylla markmið laganna. En þegar viðskiptavinur fyllir bíltankinn af jurtaolíu vegur það að fullu upp í skyldu seljandans að selja ákveðið hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra hefur þessi mál nú á sinni könnu. Fyrir rúmu ári fékk hún allar upplýsingar um að lög þessi hefðu verið samin af hagsmunaaðila og höfundurinn hefði áður verið í vinnu hjá vinstri stjórninni, að Steingrímur J. Sigfússon hefði látið sér slík vinnubrögð vel líka, lögin myndu hafa mikinn óþarfan kostnað og aukna eldsneytiseyðslu í för með sér fyrir Íslendinga og væru óhagstæð fyrir rafbíla.
Eðlileg viðbrögð ráðherrans hefðu verið að beita sér fyrir afnámi laganna og setja af stað skoðun í ráðuneytinu á spillingunni sem átti sér stað þegar hagsmunaaðili fékk að skrifa lagafrumvarp fyrir ráðherrann, hvernig ráðherrann leyndi því fyrir alþingi þegar frumvarpið var lagt fram og hvernig höfundur frumvarpsins niðurlægði atvinnuveganefnd þingsins þegar hann veitti grunlausri nefndinni umsögn um eigið meistarastykki.
En ríkisstjórnin þorir víst ekki að hreyfa við neinu sem vinstri stjórnin gerði, jafnvel mál eins og þetta sem iðar af spillingu og hefur skelfileg fjárútlát fyrir Íslendinga í för með sér fær að standa óhaggað.
Ef að almennu vörugjöldin hefðu verið lögð á í tíð síðustu stjórnar væru þau sjálfsagt enn á sínum stað.