Vefþjóðviljinn 343. tbl. 18. árg.
Tveir stjórnarþingmenn lögðu það til í umræðum á Alþingi í gær að lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi yrði frestað til ársins 2020. Óhætt er að taka undir þær tillögur Frosta Sigurjónssonar og Willums Þórs Þórssonar.
Lagafrumvarpið um endurnýjanlega eldsneytið var skrifað af einkafyrirtæki með mikla hagsmuni undir, lagt efnislega óbreytt fram af Steingrími J. Sigfússyni þá atvinnuvegaráðherra og samþykkt í fyrravor án þess að nokkur þingmaður tjáði sig um það í almennum umræðum. Höfundur frumvarpsins hafði áður verið aðstoðarmaður Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra og hafði því greiðan aðgang að vinstri stjórninni eftir að hann var ráðinn til einkafyrirtækisins. Þingmenn virðast almennt ekki hafa verið upplýstir um hvernig frumvarpið var unnið í ráðuneyti Steingríms, eða öllu heldur á skrifstofu einkafyrirtækisins. Þótt ekki kæmi annað til ætti það að teljast næg ástæða til að endurskoða lögin.
Nú þegar liggur fyrir að lögin hafa valdið Íslendingum verulegum búsifjum á árinu 2014 – hið endurnýjanlega eldsneyti er um 60 krónum dýrara í innkaupum á hvern lítra en venjulegt eldsneyti – hlýtur nýr þingmeirihluti að vinda ofan af þessum ósköpum.
Og kannski mun einhver fjölmiðill jafnvel spyrja Steingrím J. Sigfússon að því hvort fleiri dæmi séu um að einkafyrirtæki með mikla hagsmuni hafi fengið hann sem ráðherra til að leggja fram frumvörp með það að markmiði að hygla einmitt þeim fyrirtækjum.