Vefþjóðviljinn 342. tbl. 18. árg.
Á föstudaginn var hér fjallað um það vaxandi vandamál að menn nota villandi orðalag í opinberri umræðu. Icesave-kröfur á hendur skattgreiðendum hétu hjá fréttamönnum Icesave-skuldin. Krafa um hækkun réttra laun er nefnd launaleiðrétting, Lækkun rétt reiknaðra lána er kallað leiðrétting lána. Kröfur um bættan hag eru nefndar kröfur um réttlæti, án þess að menn séu spurðir hvert óréttlætið sé.
Í Fréttablaðinu um helgina var minnt á eitt villandi orðalag sem er orðið algengt. Það er krafan um að „hlustað sé á okkur“. Þegar menn nota það orðalag, þá eru þeir sjaldnast að krefjast þess að hlustað sé á þá. Þeir eru einfaldlega að krefjast þess að fá að ráða. Þeir vita hins vegar að sú krafa hljómar ekki eins vel. „Við viljum að hlustað sé á okkur.“ Það hljómar sanngjarnt. „Já, auðvitað á að hlusta á þá“, hugsar áhorfandinn. En „Við viljum fá að ráða þessu“ hljómar ekki eins vel. „Af hverju eigið þið að ráða þessu?“ hugsar áhorfandinn.
Í Fréttablaðinu var fjallað um þá ákvörðun fyrrverandi dómsmálaráðherra að lögreglan á Höfn í Hornafirði myndi heyra undir lögregluna á Austurlandi en ekki Suðurlandi. Blaðið talaði við mjög reiðan bæjarstjóra á Höfn, sem vildi að lögreglan heyrði undir Suðurland , og hefur eftir honum: „Við vorum fullvissuð um að hlustað yrði á afstöðu okkar.“
En hver segir að ekki hafi verið hlustað á sjónarmið bæjarstjórnarinnar í Hornafirði? Getur ekki verið að ráðherrann, sem samkvæmt lögum á að taka ákvörðunina, hafi hlustað á þau sjónarmið en engu að síður ákveðið að hafa annan hátt á?
Ókosnir aðilar reyna í sífellu að fá að taka ákvarðanir sem ekki eiga að vera í þeirra höndum. Þeir lýsa skoðun, veita umsagnir, gera tillögur, og krefjast þess svo að á þá „sé hlustað“. En þá eiga þeir ekki við að þeir vilji að menn hlusti. Þeir vilja fá að ráða. Þeir halda að óskir eða tillögur þeirra séu í raun fyrirmæli.
Næst þegar einhver segir í viðtali að hann vilji bara að á sig sé hlustað, ættu fréttamenn að spyrja hann hvort það sé í raun það eina sem hann fari fram á. Eða hvort hann krefjist þess kannski líka að hann fái að ráða.