Vefþjóðviljinn 338. tbl. 18. árg.
Haustið 2006 voru sett ströng lög um fjármál íslenskra stjórnmálaflokka. Með lögunum voru flokkarnir nær alfarið settir á ríkisjötuna, þar sem þeir skammta sér sjálfir í stað þess að treysta á frjáls framlög.
Ýmsir töldu að lögin myndu marka mikil tímamót í baráttunni gegn spillingu.
Nú er auðvitað ekki hægt um vik að mæla spillingu eða bera hana saman milli landa. Það þykist þó stofnun að nafni Transparency International gera og hefur gert undanfarinn áratug.
Á árunum áður en hin merku lög um fjármál stjórnmálaflokka voru sett sat Ísland í öndvegi á einkunnalista stofnunarinnar með einkunn yfir 9,5. Síðan hefur heldur sigið á ógæfuhliðina og nú er einkunn Íslands komin niður fyrir 8 og landið hefur fallið úr fyrsta sæti í það tólfta yfir síst spilltu ríki heims.