Vefþjóðviljinn 332. tbl. 18. árg.
Viðskiptablaðið sagði frá því á dögunum að Ríkisútvarpið hefði fengið hvorki meira né minna en 57,5 milljarða króna frá skattgreiðendum á þeim fáu árum sem liðin eru frá aldamótum. Það eru 57.500 milljónir króna. Við það bætast svo auðvitað verulegar auglýsingatekjur.
Og hvað ætla svo núverandi stjórnarþingmenn að gera næst? Jú, þeir ætla við aðra umræðu fjárlaga að auka enn á það sem áður var ætlað til Ríkisútvarpsins. Ekki um neina smáfjárhæð heldur 400 milljónir króna.
Í fjárlögum var gert ráð fyrir að 3,5 milljarðar færu til Ríkisútvarpsins. En nú ætla stjórnarþingmenn að bæta enn í, og fara með framlögin upp í 3,9 milljarða á næsta ári.
Þrjá komma níu milljarða.
Þeir ætla í alvöru að auka framlögin um 400 milljónir við meðferð fjárlaganna. En það á ekki að lækka neina skatta. Það er ekki einu sinni hægt að setja þessar fjögur hundruð milljónir í heilbrigðiskerfið. Nei, einhver heldur sennilega að með þessu sé hægt að friða vinstraliðið í Efstaleiti í örstutta stund.
Skattar lækka ekki. Það er talað um að heilbrigðiskerfið sé “í molum”. En það á að setja tæplega 4 milljarða í hítina í Efstaleiti, þar sem starfsmenn ganga sjálfala og telja sig mega fara með stofnunina að vild.
Þetta er ótrúlegt.