Laugardagur 8. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 312. tbl. 18. árg.

Í sjálfheldu sérhagsmuna. Ólafur Stephensen og Andri Þór Guðmundsson leggjast gegn frumvarpi um afnám ríkiseinokunar.
Í sjálfheldu sérhagsmuna. Ólafur Stephensen og Andri Þór Guðmundsson leggjast gegn frumvarpi um afnám ríkiseinokunar.

Félag atvinnurekenda, sem áður hét Félag íslenskra stórkaupmanna, er andvígt frumvarpi um afnám ríkiseinokunar í sölu áfengra drykkja. Þetta kemur fram í umsögn sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri félagsins hefur sent alþingi.

Í Félagi atvinnurekenda eru stóru áfengisbirgjarnir sem komið hafa sér í þægilega stöðu hjá áfengiseinokun ríkisins.

Ef íslenskir fjölmiðlar væru ekki alveg sofandi myndi einhver þeirra auðvitað spyrja: Hve stóran hluta af einokunarplássinu í ÁTVR hafa félagsmenn í FA?

Flestir sem reynt hafa að bregða fæti fyrir frumvarp um afnám einokunar ÁTVR á smásölu áfengis að undanförnu hafa sýnt þann manndóm að viðurkenna að þeir séu einfaldlega andvígir auknu frelsi á þessu sviði. En Félag hilluplásshafa hjá ÁTVR segist í öðru orðinu vera fylgjandi frelsi í viðskiptum með áfengi en leggst síðan gegn frumvarpi um afnám áfengiseinokunarinnar.

Einn hilluplásshafinn er Andri Þór Guðmundsson hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar sem segir í viðtali við Viðskiptablaðið að það sé „grundvallarviðhorf [Ölgerðarinnar] til viðskipta að þau eigi að vera frjálsari.“ En segir svo: „Við höfum átt mjög gott samstarf við ÁTVR sem hafa að mörgu leyti staðið sig frábærlega.“ Huggulegt. Andri Þór er því á móti frumvarpinu.

Frumvarp Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins gerir vissulega ekki ráð fyrir algeru frelsi í sölu áfengis. Bensínstöðvum og sjoppum verður til að mynda ekki heimilt að selja áfengi og verslunum eru settar ýmsar skorður um hvenær og hvernig áfengi er haft til sölu. En það er engu að síður risaskref frá þeirri algjöru ríkiseinokun sem landsmenn búa nú við.

Það eru auðvitað hin bestu meðmæli með frumvarpinu að þeir sem komið hafa sér „frábærlega“ fyrir í skjóli einokunarinnar, sem frumvarpinu er ætlað að rjúfa, skuli vera á móti því.