Föstudagur 7. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 311. tbl. 18. árg.

Meðal þess sem breyst hefur til verri vegar á síðustu árum, eru viðhorf margra til ríkisins og réttinda sinna. Mannréttindi hafa löngum snúist um að vernda borgarann gegn ofríki hins opinbera. Ekki má svipta menn frelsi án dóms og laga. Ekki má banna mönnum að tjá skoðanir sínar. Ekki má svipta menn eigum sínum. Ekki má banna mönnum að stunda atvinnu. Ekki má banna mönnum að stofna félag, og svo framvegis.

Á allra síðustu árum hafa ýmsir farið að gera kröfur um allt öðruvísi réttindi. Þeir telja mannréttindi ekki snúast um að verja borgarann fyrir aðgerðum ríkisins, heldur ekki síður um að skylda ríkið til einhverra aðgerða sem einhver hópur telur sig eiga rétt á að gerðar séu fyrir hann. Sumum nægir ekki að eiga þau mannréttindi að vera ekki bannað að stunda starf, heldur finnst að þeir eigi beinlínis rétt á að hafa vinnu. Á hverjum degi má heyra einhvern kvarta yfir því að hafa orðið fyrir mannréttindabroti, en ótrúlega oft er það eitthvað sem ekkert á skylt við hin sígildu mannréttindi, að vera ekki beittur ofríki af hinu opinbera.

Sambærileg viðhorf heyrast oft á öðrum sviðum. Fleiri og fleiri virðast telja sig eiga heimtingu á aðstoð hins opinbera við verk sín.

Tónlistarmenn vilja að hið opinbera leggi peninga í að kynna íslenska tónlist í útlöndum. Kvikmyndagerðarmenn krefjast hárra framlaga í kvikmyndasjóð, svo þeir geti gert kvikmyndir. Þeir sem vilja halda hér kvikmyndahátíðir vilja að borgin styrki þá til að halda kvikmyndahátíð. Alls kyns „frumkvöðlar“ vilja að ríkið tryggi fjárfestingu í „nýsköpun“ og styðji „sprotafyrirtæki“.

Hlutverk ríkisins er ekki að skattleggja venjulegt fólk til þess að borga kynningarstarf fyrir tónlistarmann eða styrkja kvikmyndagerðarmann til að búa til bíómynd. Ríkið á að sjá báða þessa menn í friði við listsköpun sína, en hefur enga skyldu til þátttöku í henni. Ríki og sveitarfélög eiga að halda sig sem mest til hlés og þar með halda álögum í sem allra mestu hófi, og þá hefur fólk meira milli handanna til að sinna sínum eigin áhugamálum.

Frumkvöðlar, hvort sem er í íþróttum, listum eða öðrum atvinnugreinum, eiga að hafa sem mest frelsi til að stunda starfsemi sína. En þeir eiga ekki að gera kröfu um annan ríkisstuðning en þann að vera látnir í friði.