Miðvikudagur 5. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 309. tbl. 18. árg.

Ef það er nú rétt að síðustu misseri fyrir bankahrun hafi verið tími bólu og froðu, hvernig geta menn þá ætlast til að enn verði haldið ríkisútgjöldum eins og þau voru á tíma bólunnar?
Ef það er nú rétt að síðustu misseri fyrir bankahrun hafi verið tími bólu og froðu, hvernig geta menn þá ætlast til að enn verði haldið ríkisútgjöldum eins og þau voru á tíma bólunnar?

Ríkisútgjöld þenjast út ár frá ári. Sama má segja um eyðslu sveitarfélaga. Engu að síður er til fólk sem heldur að það lifi blóðuga niðurskurðartíma þar sem frjálshyggjudólgar brjóti niður „innviði samfélagsins“.

Ofan á allt annað, þá hefur núverandi ríkisstjórn ákveðið að 80 milljarðar króna af opinberu fé fari til að lækka verðtryggð húsnæðislán fólks. Enda eiga vinstrimenn varla nægilega stór orð til að lýsa áhyggjum sínum af niðurbroti innviðanna og frjálshyggjubyltingunni.

Ríki og sveitarfélög skulda ótrúlegar fjárhæðir. Skattheimta eykst jafnt og þétt. Í raun þarf að hefja svo stórfelldan niðurskurð opinberra útgjalda að ekki er víst að allir átti sig því hversu mikið þyrfti að gera. Það þyrfti að skera niður um tugi milljarða króna á ári, þannig að hlutur hins opinbera í þjóðfélaginu yrði nær óþekkjanlegur frá því sem nú er.
Annars er merkilegt að heyra til margra þeirra sem mæla í öðru orðinu gegn niðurskurði. Í hinu orðinu tala þeir nefnilega oft um hversu allt hafi verið mikil bóla og blekking á lokametrunum fyrir bankahrun. „Ofsagróðinn“ hafi verið falskur, launaskriðið „úr korti“ og flest byggt á „froðu“.

Víst virðist ýmislegt vera til í því að ekki hafi verið innstæða fyrir öllu því sem þá voru talin verðmæti.

En það var þó þetta hagkerfi sem ríkisútgjöldin fyrir örfáum árum voru byggð á. Tekjuskattar af háu laununum, opinber gjöld af rándýrum bifreiðum og tækjum, virðisaukaskattur og vörugjöld af því sem fólk keypti sér fyrir kaupaukana og hlutabréfagróðann, tekjuskattur af hagnaði fyrirtækja, fjármagnstekjuskattur af hagnaði af ýmsum viðskiptum.

Ef það er nú rétt að síðustu misseri fyrir bankahrun hafi verið tími bólu og froðu, hvernig geta menn þá ætlast til að enn verði haldið ríkisútgjöldum eins og þau voru á tíma bólunnar?