Mánudagur 3. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 307. tbl. 18. árg.

Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun segjast nú nokkru færri styðja ríkisstjórnina en gerðu það þegar síðast var spurt. Samkvæmt þessu er um þriðji hver maður yfirlýstur stuðningsmaður stjórnarinnar, en í upphafi valdaferils hennar var rúmlega annar hver maður yfirlýstur stuðningsmaður.

Álitsgjafar hafa sagt ýmislegt um ástæður þessa.
Ein skýring blasir við, þótt margir álitsgjafar hafi ekki nefnt hana.

Ríkisstjórnin hefur gert mjög fátt af því sem hefðbundnir stuðningsmenn hennar ætluðust til og bjuggust við af henni.

Auðvitað voru margir sem kusu stjórnarflokkana og þá einkum Framsóknarflokkinn vegna þeirrar kosningastefnu að lækka verðtryggð íbúðalán. Þeir sem þannig komu nýir til liðs við flokkana í kosningum voru hins vegar vafalaust aðeins tilfallandi stuðningsmenn, sem eru reiðubúnir að kjósa einu sinni eftir slíkum útreikningum, en telja sig aldrei til stuðningsmanna stjórnarflokkanna eða ríkisstjórnarinnar.

En það eru hinir kjósendurnir sem ríkisstjórnin veltir aldrei fyrir sér. Þessir sem hún heldur að hún geti gengið að vísum.

Til hvers ætluðust hefðbundni stuðningsmenn stjórnarflokkanna af þeim, þegar þeir greiddu þeim atkvæði fyrir átján mánuðum?

Þeir ætluðust til þess að ESB-inngöngubeiðnin yrði tafarlaust afturkölluð, þeir ætluðust til verulegra skattalækkana, þeir ætluðust til þess að pólitískar lagabreytingar í vinstriátt frá valdatíð Jóhönnu og Steingríms yrðu afturkallaðar, þeir ætluðust til þess að gjaldeyrishöft yrðu afnumin.

Þeir ætluðust hins vegar ekki til þess að Ísland yrði ennþá umsóknarríki að Evrópusambandinu átján mánuðum eftir stjórnarskipti. Þeir ætluðust ekki til þess að enn yrði fjölþrepa skattkerfi. Þeir ætluðust ekki til þess að tekjuskatturinn hefði varla lækkað neitt. Þeir ætluðust ekki til þess að öll lög úr valdatíð Jóhönnu stæðu óbreytt.

Þeir ætluðust til þess að forystumenn sínir legðu óhræddir til atlögu við vinstrimennina. Þeir ætluðust ekki til þess að forystumennirnir þyrðu ekki að gera neitt sem ekki verður samstaða um á þingi.

Og nú eru margir þessara stuðningsmanna byrjaðir, einn af öðrum, að segja við Gallup að þeir svari því ekki hvort þeir styðji ríkisstjórnina.