Vefþjóðviljinn 263. tbl. 18. árg.
Karl Garðarsson og Frosti Sigurjónsson þingmenn Framsóknarflokksins lýstu yfir miklum efasemdum í vikunni um réttmæti þess að leggja ekki virðisaukaskatt á laxveiði. Var ekki laust við að hneykslunar gætti hjá þeim félögum yfir því óréttlæti heimsins að matur væri skattlagður en ekki lúxus eins og laxveiði.
Hér er um byrjendamistök að ræða hjá þeim félögum sem verða snarlega leiðrétt með nokkrum samtölum innan Framsóknarflokksins, ef ekki er þegar búið að því verður það gert í rólegheitum nú um helgina. Áður en næsta vika hefst verður búið að leiða þeim fyrir sjónir að það sé eðlilegt að undanþiggja laxveiðina.
Það mun því væntanlega ekki heyrast frekar frá þeim um þetta mikla óréttlæti nema fjölmiðlar spyrji þá sérstaklega. Og þá verða svörin jafn skýr og skilmerkileg og svör þeirra um fjármögnun „leiðréttingarinar“, undanþáguna frá bankaskattinum og kosti þess að endurreisa áburðarverksmiðju ríkisins.