Vefþjóðviljinn 250. tbl. 18. árg.
Nú hafa einhverjir fengið það í gegn að til þess að menn geti fengið „leiðréttinguna“, opinbera skuldalækkun á kostnað ríkisins, þá verði þeir að fá sér „rafræn auðkenni“ sem fyrirtækið Auðkenni býður upp á.
Einhverjir vilja alveg endilega að landsmenn fái sér „rafræn auðkenni“. Bankarnir hafa otað þessu að fólki árum saman, en áhugi landsmanna ekki verið sá sami og hjá bankamönnunum. Þeir eru einnig til sem vilja að fólk hætti að nota áþreifanlega peninga og að sem allra mest verði „rafrænt“. Nú telja þeir sig hafa fengið ótrúlegt vopn upp í hendurnar. Allir vilji fá „leiðréttinguna“ og þá sé bara að gera „rafrænu auðkennin“ að skilyrði fyrir útborguninni. Neitarðu enn að fá „rafræn auðkenni“? Jæja, þá færðu ekki milljónina.
Hér er á ferð alger misnotkun á hinu opinbera, og þar skiptir ekki máli hvort mönnum líkar „leiðréttingin“ vel eða illa, eða hvort menn telja „rafræn auðkenni“ mikið framfaraspor. Það er einfaldlega verið að nota opinbera aðgerð á einu sviði til þess að knýja fram eitthvert baráttumál óviðkomandi manna á allt öðru sviði.
Það er engin nauðsyn að gera „rafræn auðkenni“ að skilyrði fyrir því að menn fái þessa „leiðréttingu“. Menn hafa komist af án rafrænna auðkenna fram að þessu, skilað skattskýrslu, notað heimabanka, keypt bíla og fasteignir, og hvað sem er annað. „Rafrænu auðkennin“ eru bara baráttumál einhverra banka og það á ekki að nota opinberar aðgerðir til að ná þeim fram.
Ef stjórnvöld komast upp með að gera „rafræn auðkenni“ að skilyrði fyrir því að menn fái greidda þessa „leiðréttingu“, hvar ætla menn þá að nema staðar? Er ekki rétt að umsækjendur um „leiðréttingu“ þurfi líka að láta mæla hjá sér kólesterólið, hætta að reykja og fara í ristilspeglun? Það yrði mikið framfaraskref ef allir létu mæla kólesterólið. Gera það að skilyrði fyrir „leiðréttingunni“ og hjartasjúkdómum fækkar næsta áratuginn.
Svo mætti halda áfram. Það myndi stórbæta heilsu landsmanna ef þeir hugsuðu meira um heilsuna. Auðvitað ætti að gera árskort í ræktinni að skilyrði þess að menn fái persónuafslátt um hver mánaðamót. Viltu koma barninu þínu á dagheimili? Já, þá þarftu fyrst að gefa blóð. Svo eru þessir fordómar alveg óþolandi. Enginn ætti að fá að safna í séreignarsparnað nema hann fái umsóknina sína stimplaða í gleðigöngunni. Svona mætti knýja fólk til alls kyns gagnlegra hluta. Bara gera þá að skilyrði fyrir einhverju allt öðru. Viltu komast á hjúkrunarheimili þegar þú verður gamall? Þá verður þú að borða fisk tvisvar í viku og kaupa þér leikhúskort.
Hvað sem mönnum finnst um „leiðréttinguna“ þá er það því miður þannig að hún hefur verið sett í lög. Eins vitlaust og þetta er, þá er „leiðréttingin“ einfaldlega orðin að opinberri aðgerð sem ákveðið hefur verið að fólk í tiltekinni aðstöðu eigi rétt á. Þá kemur ekki til greina að setja skilyrði um þátttöku í einhverju allt öðru. Það er alger misnotkun.
Svona hlutir verða sífellt algengari. Dæmi um slíkt er þegar borgaryfirvöld ákváðu að ekki þyrfti að greiða bílastæðagjöld þegar lagt væri bifreiðum sem gæfu frá sér svo og svo lítinn útblástur koltvísýrings. Bílastæðagjöld snúast um hagkvæma nýtingu bílastæða, en koma áhuga eintakra borgarfulltrúa á koltvísýringi ekki við. Þótt borgarfulltrúar vilji að borgarbúar velji sér öðruvísi bíla, þá er það misnotkun þegar bílastæðagjöldin eru notuð til að teyma fólk að vilja borgarfulltrúanna.
„Leiðréttingin“ er ótrúleg millifærsla skattfjár til hluta skuldara í landinu. En fyrst hið opinbera ætlar að gera slíkt, þá á að gera það án frekari ranginda. Það er mikil misnotkun ef þessi aðgerð verður notuð til að knýja fólk til þátttöku í einhverju átaki á allt öðru sviði.