Vefþjóðviljinn 247. tbl. 18. árg.
Það er verulega lífseig kenning að þeir sem veita verðtryggð húsnæðislán beri enga áhættu en lánþegar, eða lánþolar eins og þeir eru nefndir í seinni tíð, beri alla áhættuna af þeim viðskiptum.
Hagfræðingar bera hana til að mynda á borð í hverri viku á Bylgjunni.
Það kemur því verulega á óvart að aðeins einn aðili í landinu skuli hafa sérhæft sig í að lána húsnæðiskaupendum verðtryggt og engu öðru. Ætla mætti að bisness þar sem aðrir bera alla áhættuna myndi höfða til framtakssamra manna.
Þessi einmana lánastofnun er Íbúðalánasjóður. Hann hefur um árabil ekki gert annað en að lána fólki verðtryggt til íbúðakaupa.
Og hver er svo afraksturinn af þessari áhættulausu starfsemi? Eftir því hver er spurður er tapið af hinni áhættulausu lánastarfsemi sjóðsins á bilinu 64 til 270 milljarðar króna frá árinu 1999.