Miðvikudagur 3. september 2014

Vefþjóðviljinn 246. tbl. 18. árg.

Einn af hinum viljugu í árásarstríðinu gegn Líbýu?
Einn af hinum viljugu í árásarstríðinu gegn Líbýu?

Ögmundur Jónasson þingmaður og fyrrverandi ráðherra Vinstrigrænna hefur boðað að hann muni á komandi þingi leggja til að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ögmundur segir í nýlegri grein í DV:

Sú var tíðin að NATÓ samstarfið var landfræðilega bundið við aðildarríki bandalagsins. Árás á eitt jafngilti árás á öll. Ákvæði þessa efnis er að finna í stofnsáttmála bandalagsins frá 1949. Um miðjan tíunda áratuginn fór að gæta tilrauna af hálfu herveldanna að víkka út þessa hugsun þannig að sá skilningur yrði lagður í ákvæðið að ógn jafngilti árás og ætti einu að gilda hvaðan í heiminum sú ógn kæmi. Þar með hætti NATÓ að vera einvörðungu varnarbandalag gegn innrás í aðildarríkin.

Það er ýmislegt til í þessu hjá Ögmundi. Atlantshafsbandalagið hefur á síðustu árum færst í aukana og gripið til aðgerða sem mjög umdeilanlegt er að hafi verið í samræmi við stofnsáttmála og tilgang þess. Má þar nefna loftárásir bandalagsins á Serbíu og Líbýu. Sérstaklega var langsótt að loftárásirnar í Líbýu hafi samrýmst tilgangi bandalagsins.

Yfirleitt ræður Ísland engu á alþjóðavettvangi. Þótt utanríkisráðuneytið tali og tali um áhrif landsins og rödd þess, þá ræður Ísland yfirleitt engu um það sem gert er, og á alþjóðavettvangi er flestum sama um hvað íslenskum ráðamönnum finnst. En á þessu valdaleysi Íslands er ein afgerandi undantekning. Innan Atlantshafsbandalagsins gildir sú regla að öll aðildarríkin hafa neitunarvald.

Þegar Atlantshafsbandalagið ákvað að hefja lofthernað í Líbýu árið 2011 hefði mótatkvæði Íslands stöðvað málið. Ísland hefði getað komið í veg fyrir lofthernaðinn en ákvað að gera það ekki. Sú ákvörðun landsins var endurtekin oftar en einu sinni, enda voru samþykktirnar gerðar til ákveðins tíma.

Hverjir sátu aftur í ríkisstjórn Íslands þá?