Vefþjóðviljinn 241. tbl. 18. árg.
Er minnihlutastjórn í landinu?
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar pistil í Morgunblaðið í dag og segir þar frá samtali við danskan kunningja sinn. Sá danski hafði spurt Hjört hvort það væri ekki rétt skilið að stefna ríkisstjórnar Íslands væri sú að Ísland yrði fyrir utan Evrópusambandið. Jú, Hjörtur gat staðfest það. Þá vildi sá danski vita hvernig á því gæti staðið að Ísland væri enn umsóknarríki í þetta sama samband, og ekki undarlegt að maðurinn hafi viljað fá skýringu á því.
Hjörtur segist hafa reynt að útskýra það með því að ríkisstjórnin hafi ákveðið að láta vinna skýrslu um málið áður en inngöngubeiðnin yrði afturkölluð. Þá spurði sá danski hvort skýrslan væri ekki komin? Jú jú, hún er löngu komin. Hvernig stendur þá á þessu, spurði undrandi Daninn.
Jú stjórnarandstaðan hafði ekki viljað að málið yrði afgreitt.
Og þá spurði Daninn, eins og von er, hvort í landinu sæti minnihlutastjórn.
Staðreyndin er reyndar sú, eins og Hjörtur sagði forviða Dananum, að ríkisstjórn Íslands styðst mjög ríflegan meirihluta. Forystumenn ríkisstjórnarinnar og nánustu samverkamenn þeirra þora hins vegar ekki að nota þann meirihluta. Þeir halda réttilega að þá verði stjórnarandstaðan reið. Og þeir halda ranglega að eitthvað sé slæmt við það.
Það er með algerum ólíkindum að sextán mánuðum eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur missti meirihluta sinn sé Ísland enn umsóknarríki í Evrópusambandið.
Er minnihlutastjórn í landinu?