Vefþjóðviljinn 240. tbl. 18. árg.
Óli Björn Kárason varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins ritaði grein um skattamál í Morgunblaðið í vikunni og birti hana einnig á t24.is
Þar segir í inngangi:
Vinstrisinnaðir stjórnmálamenn (og fræðimenn) eru í hjarta sínu alltaf á móti því að skattar séu lækkaðir – að almenningur fái að halda eftir stærri hluta af sjálfsaflafé sínu en áður. Röksemdirnar eru margvíslegar og því miður hafa ágætir hægrimenn fallið (a.m.k. tímabundið) fyrir nokkrum þeirra:
Skattalækkun er aðeins fyrir þá efnameiri.
Skattalækkun er gerð á röngum tíma.
Skattalækkun er gerð með röngum hætti.
Skattalækkun veldur ofþenslu af því að óábyrgir einstaklingar ráðstafa fjármunum í stað góðgjarnra stjórnmálamanna og skynsamra embættismanna.
Skattalækkun veldur verðbólgu og viðskiptahalla.
Skattalækkun vegur að rótum velferðarkerfisins því að tekjur ríkisins skerðast.
Skattalækkun er í raun skattahækkun því að tekjur ríkisins hafa aukist við fyrri skattalækkanir.
Það er sem sagt aldrei rétt að lækka álögur á almenning. Vinstrimenn hafa meiri áhuga á að auka millifærslur og flækja skattkerfið þannig að meðalmaðurinn skilji hvorki upp né niður í kerfinu og fái aldrei skilning á rétti sínum. Þung skattbyrði er falin í torskildu millifærslukerfi og reynt er að leyna skattahækkunum með margþættum skattþrepum og flóknum reglum. Þannig er reynt að eyðileggja varnir skattgreiðenda gegn auknum álögum.Frá árinu 2009 var gengið skipulega til verks og sæmilega einfalt tekjuskattskerfi eyðilagt. Til varð margslungið kerfi millifærslu, stighækkandi skatta og lamandi jaðarskatta. Launamenn fengu ekkert skjól heldur aðeins þeir sem hafa efni á því að kaupa þjónustu endurskoðenda og skattasérfræðinga.
Eins og ráða má af þessum inngangi er óhætt að lesa greinina til enda á t24.