Vefþjóðviljinn 239. tbl. 18. árg.
Það hefur varla hætt blaðamaður, hvað þá ritstjóri, í vinnu án þess að það sé vegna þess að þrengt hafi verið að ritstjórnarlegu sjálfstæði. Mikið drama, sem aðrir fjölmiðlamenn segja samviskusamlega frá, fjölmiðlamenn um fjölmiðlamenn.
Stundum hrekkur upp úr þeim að þeim hafi liðið illa árum saman vegna afskipta eigenda fjölmiðils af þeim eigum. En þó ekki skýrt strax frá þeim skelfilegu afskiptum þrátt fyrir hinar merku skyldur sínar við lesendur og almenning. Nei, nei, almenningur má jafnvel bíða árum saman eftir frásögnum af því hvernig „eigendavaldi var misbeitt“.
Af einhverjum ástæðum halda menn að fjölmiðlar lúti öðrum lögmálum en fyrirtæki almennt og starfsmenn fjölmiðla geti læst eigendur þeirra úti á meðan helstu ákvarðanir séu teknar. Hins vegar er það auðvitað svo að fjölmiðlar öðlast traust lesenda sinna með því að koma hlutunum nokkurn veginn óbrengluðum til skila, alveg eins og önnur fyrirtæki gera með því að bjóða vandaða þjónustu. Þess vegna getur það verið hagur eigenda að láta fréttaskrif eiga sig.