Þriðjudagur 26. ágúst 2014

Vefþjóðviljinn 238. tbl. 18. árg.

Á hverju sem gengur - góðæri eða bankahrun - halda útgjöld ríkissjóðs áfram að aukast.
Á hverju sem gengur – góðæri eða bankahrun – halda útgjöld ríkissjóðs áfram að aukast.

Ýmis útgjöld sem ríkissjóður tók á sig vegna bankahrunsins eru greinileg þegar litið er á mynd af þróun tekna og gjalda sjóðsins undanfarinn áratug. Ekki bætti svo úr skák að við völdum tók stjórn vinstri flokka.

En framhjá því verður heldur ekki litið að þróun útgjalda ríkissjóðs á síðustu árunum fyrir bankahrunið var svakaleg.

Ef Vefþjóðviljinn væri mikið fyrir að framlengja þróun liðinna ára inn í framtíðina hefði hann líklega spáð því í ársbyrjun 2008 að útgjöld ríkissjóðs árið 2014 yrðu nánast eins og þau eru einmitt núna.

Þrátt fyrir bankahrun og hreina vinstri stjórn eru útgjöldin bara svona svipuð og ef menn hefðu haldið óbreyttri stefnu áranna fyrir hrun.

Nú er bara að sjá hvort þessi þróun haldi ekki örugglega áfram næstu árin. Það skýrist verulega með fjárlagafrumvarpinu í haust.