Vefþjóðviljinn 237. tbl. 18. árg.
Það þarf ekki að koma á óvart að það taki tíma að finna skynsamlega leið til að verða við þeirri ósk núverandi innanríkisráðherra að hluti málaflokka ráðuneytisins verði færður undir annan ráðherra í óákveðinn tíma. Forsætisráðherra hefði betur hafnað þessari ósk.
Eitt það furðulegasta við opinbera umræðu um þennan anga „lekamálsins“ er að hver fréttamaðurinn eftir annan talaði í síðustu viku um að það skipti máli hvenær Ólafur Ragnar Grímsson komi til landsins. Það þyrfti að gefa út forsetaúrskurð til að færa málaflokka milli ráðuneyta og því þyrti að bíða eftir heimkomu Ólafs Ragnars.
Það er kannski ekkert nýtt við slíka vanþekkingu fréttamanna. En það var undarlegt að heyra forsætisráðherra tala á sama veg.
Fjarvera Ólafs Ragnars Grímssonar skipti þarna engu máli. Sé forseti Íslands erlendis taka handhafar forsetavalds við hlutverki hans. Forsetinn persónulega skiptir engu máli við útgáfu forsetaúrskurðar sem auðvitað er gefinn út á ábyrgð forsætisráðherrans en ekki forsetans. Ákveði forsætisráðherra að nýr forsetaúrskurður verði gefinn út þá verður hann gefinn út.
Hér er komin enn einn misskilningurinn sem á rót sína að rekja til umræðunnar um fjölmiðlalögin árið 2004. Síðan þá hefur fjöldi manns misskilið stöðu forseta Íslands gersamlega og meira að segja gerðu flestir forsetaframbjóðendanna árið 2012 það. Þóra Arnórsdóttir var sú sem komst næst því að skilja forsetaembættið.
Forseti Íslands hefur ekki persónuleg völd. Það er ráðherra á hverju sviði sem fer með vald forsetans. Það er undirskrift ráðherra með forseta sem skiptir máli.