Þriðjudagur 5. ágúst 2014

Vefþjóðviljinn 217. tbl. 18. árg.

Hvenær fær þjóðin að segja sitt um aðildina að Noregi?
Hvenær fær þjóðin að segja sitt um aðildina að Noregi?

Hvenær verður þjóðaratkvæðagreiðslan um aðildina að Noregi haldin? Samfélagsmiðlarnir loga vegna málsins. Á ekki að gefa þjóðinni kost á að segja sitt í málinu? Við hvað eru menn hræddir?

Krafan um aðildina að Noregi uppfyllir líklega sömu kröfur og hugmyndin um aðild að ESB. Meirihluti Íslendinga er andvígur, meirihluti þingmanna er gegn hugmyndinni, ríkisstjórnin er ekki bara andvíg heldur vill hún skiljanlega ekki standa í aðlögun sem hún er andvíg, Norðmenn vilja ekki sýna „samninginn“ og alls ekki hefja „viðræður“ um sjávarútveg nema byrlega blási í könnunum. 

Á virkilega að halda þessu máli frá þjóðinni?