Vefþjóðviljinn 216. tbl. 18. árg.
Ætli engum hafi dottið í hug að banna þessar útihátíðir?
Það má auðveldlega finna rök til að banna þær. Það kostar stórfé inn. Flestir þurfa að leggja á sig langt og dýrt ferðalag til að komast á hátíðarsvæðið. Veðrið verður oft vont, rigning og rok og tjöldin fjúka. Fjölmargir drekka sig út úr og eru látnir sofa úr sér í gámi sem settur hefur verið upp einmitt í þeim tilgangi. Svo eru það fíkniefnin, þarna byrja margir að neyta þeirra. Tónlistin sem er spiluð er frekar léleg og auðvitað ekki í sömu gæðum og menn geta fengið heima í stofu. Loks eru það kynferðisbrotin sem fréttamenn fjalla skiljanlega látlaust um dagana fyrir hátíðirnar og eru auðvitað svo mörg að mótshaldarar hafa komið upp forvarnarsveitum og eftirlitsmönnum.
Það má hæglega rökstyðja bann við útihátíðum um verslunarmannahelgi. Rétt eins og það má rökstyðja næstum því hvaða bann sem er.
Það er sífellt verið að banna fólki eitthvað, sem einhver telur að menn geti skaðað sig á. Nýlega var fólki til dæmis bannað að taka „smálán“ á „of háum“ vöxtum, af því að stjórnmálamenn ákváðu að það væri skaðlegt fyrir lántakann, sem auðvitað má ekki ákveða þetta sjálfur. Ríkið leggur sérstakan skatt á sykur, því stjórnmálamenn vilja ekki að fólk borði of mikinn sykur. Það eru ótrúleg gjöld lögð á tóbak, því stjórnmálamenn vilja ekki að fólk reyki. Veitingahúsaeigendur mega ekki leyfa gestum sínum að reykja, því stjórnmálamenn létu undan frekjunum sem töldu sig hafa rétt til þess að neyða aðra menn til að hafa veitingastaðina sína reyklausa.
Það má telja lengi og lengi, bönnin sem sett eru vegna þess að stjórnlyndir menn vilja ekki að annað fólk taki „rangar“ ákvarðanir. Þessi bönn eiga það hins vegar flest sameiginlegt með banninu sem enn hefur ekki verið sett við útihátíðum, að verið er að banna fólki að taka ákvarðanir sem það á sjálft að fá að taka.
Frjáls maður á að ráða því sjálfur hvort hann fær sér smjör, tóbak, áfengi og kaffi og annan varning sem einhver vill selja honum. Það kemur ríkinu ekki við. Í því að fá að taka sjálfur réttar og rangar ákvarðanir um eigið líf er fólgið eitt grunnatriðið í því að vera frjáls maður. Bann við útihátíðum væri eins fráleitt og flest önnur bönn sem sett eru til að koma í veg fyrir að fólk fari óskynsamlega að ráði sínu.