Vefþjóðviljinn 215. tbl. 18. árg.
Vonandi hefur enginn félagi í Samtökum um bíllausan lífsstíl freistast til að raða börnunum, tjaldinu og prímusnum inn í einkabílinn ógurlega nú um helgina, eins og nýjustu bögglaberarnir eru orðnir góðir.
Á dögunum var sagt frá því að 99,5% þeirra sem á annað borð skili skattframtali geri það á netinu. Fyrir aldamótin þurfti hins vegar tugþúsundir bílferða til að koma framtölunum til skila á skattstofur.
Og hvað ætli netbankar hafi sparað mönnum marga bílferðir í bankaútibú? Sjálfsagt væri hægt að fá einhverjar tölur um heimsóknir í útibúin fyrir tilkomu netbankanna en það var án efa algengt að fólk mætti mánaðarlega í útibúin til að greiða húsfélagsgjöldin og ná í nýtt tékkhefti. Þetta gætu verið nokkrar milljónir bílferða á ári.
Hvað ætli fasteignavefir hafi sparað mönnum margar bílferðir til að skoða „spennandi eign sem býður upp á mikla möguleika“?
Hatursmenn einkabílsins hafa því sjaldan haft betri ástæðu til að kætast en á undanförnum árum, því netið hefur gert mönnum mögulegt að sinna ótal erindum heiman frá sér í stað þess að bruna á blikkbeljunni. Menn geta jafnvel leyst hluta af starfsskyldum sínum heiman frá sér. Þetta er raunverulegt val og raunhæfur kostur í stað einkabílsins.
Tilburðir stjórnmálamanna til að draga úr notkun einkabílsins eru hlægilegir í samburði við þessa þróun. Hvað ætli breytingar fyrir mörg hundruð milljónir króna í Borgartúni, Snorrabraut og Hofsvallagötu hafi til að mynda sparað mönnum marga bíltúra? Engan, en lengt marga þeirra með tilheyrandi tímasóun og útblæstri.