Vefþjóðviljinn 213. tbl. 18. árg.
Malarvegir munu nú vera í heldur slæmu ástandi víða um land. Sumir líklega mjög slæmu. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir vegamálastjóra að Vegagerðin hafi aðeins fengið um 65-70% þess fjár sem nauðsynlegt sé til að sinna vegakerfinu og í blaðinu er talað við Ómar Ragnarsson, sem þeytist manna mest um alla vegi, og segist hann ekki hafa séð verri vegi í sextíu ár. Ómar segir í viðtali við blaðið:
Það er á þessu einföld skýring. Vegagerðina vantar um þriðjung upp á að fjármagn til viðhalds á vegunum dugi. Maður sýnir því skilning að það kostar ríkissjóð að eyða peningum í þetta, sem á sama tíma þarf að greiða afborganir og vexti af stórum lánum. En þá vaknar spurning um hvort ekki sé verið að sóa þessum peningum í annað þegar verið er að berja bílaflotann á þessum vegum. Hvað kostar það í viðgerðum, töfum og óþægindum?
Já, það má lengi reikna út að ríkið tapi á öllum sínum sparnaði. Öll ríkisútgjöldin eiga að skila einhverjum verðmætum, eða forða tjóni, og ótrúlega oft virðast menn geta rökstutt að einmitt sá sparnaður, sem til umræðu er, muni skila tapi þegar allt verður til tekið. Sennilega gætu einhverjir reiknað út að besti sparnaðurinn væri að auka einfaldlega öll útgjöld gríðarlega og þá yrði á endanum ofboðslegur sparnaður.
En það er rétt að ríkið þarf að eyða í ýmislegt, svo sem afborganir og vexti af lánum. En ríkið hefur verið látið greiða margt fleira á síðustu misserum. Hvað kostaði til dæmis atlagan að stjórnarskránni? “Þjóðfundurinn” þar sem menn sátu á hringborðum og sameinuðust um stikkorð sem voru skrifuð á gula límmiða. Rándýr, flókin og ógild kosning til stjórnlagaráðs. Skipun ólöglega kosinna manna í stjórnlagaráð þar sem þeir sátu í nokkra mánuði á þingfararkaupi og ríkið sá um starfslið og kostnað. „Ráðgefandi kosning“ þar sem yfirgnæfandi meirihluti landsmanna lýsti ekki yfir stuðningi við tillögur ráðsins, sem minnihluti þingmanna valdi eins og ógild kosning hefði verið gild.
Hvað ætli þetta hafi kostað? Hvenær ætla núverandi stjórnvöld að taka á sig rögg og segja upphátt að atlögunni sé lokið?