Vefþjóðviljinn 209. tbl. 18. árg.
Í dag er liðin öld frá því út braust sá ófriður sem síðar varð nefndur fyrri heimsstyrjöldin. Hin frjálslynda siðmenning Vesturlanda riðaði til falls en leiðin varð greið fyrir alræði og ofstæki. Næstu áratugina áttu tugir milljóna manna eftir að læsast í greipum kommúnista og nasista og sumir jafnvel í greipum beggja til skiptis.
Ein orsök þess að svo fór sem fór árið 1914 var reyndar óvænt löngun til faglegra vinnubragða eftir morðið á Franz Ferdinand erkihertoga, en vandræðagangurinn sem fylgdi morðinu varð líklega á endanum til þess að afleiðingarnar urðu nær óendanlega hrikalegri en þær hefðu þurft að verða. En það er önnur saga sem ekki verður fjallað um hér í dag.
Á hverju ári kemur út skýrsla um atvinnufrelsi í rúmlega 140 löndum, en þar hefur hallað undan fæti hjá Íslendingum á síðustu árum, en atvinnufrelsið hefur minnkað umtalsvert hér. Einn höfunda þessarar skýrslu, Robert Lawson bandarískur hagfræðiprófessor, mun í dag flytja fyrirlestur um það hvernig mæla skal atvinnufrelsi og hvað má læra af slíkri mælingu. Fundurinn verður haldinn á vegum Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt og Samtaka skattgreiðenda, og fer hann fram í fundarsal Gamma, Garðastræti 37 og hefst klukkan 16:30.
Þeir, sem vilja sækja málstofuna, eru vinsamlegast beðnir að láta af því vita í netfangið rnh@rnh.is eða með því að skrá sig á Facebook-síðu viðburðarins.