Föstudagur 4. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 185. tbl. 18. árg.

Af einhverjum ástæðum ákvað bankaráð Seðlabankans að leita til Ríkisendurskoðunar eftir áliti á því háttalagi að bankinn var látinn greiða málskostnað Más Guðmundssonar, þegar Már tapaði máli sem hann fór í við bankann. Már hafði krafist þess að fá dæmdan málskostnað, en því var að auðvitað hafnað í Hæstarétti. Engu að síður borgaði bankinn, sem vann, málskostnaðinn fyrir Má, sem tapaði.

Mörgum mánuðum síðar kemur loksins einhver froða frá Ríkisendurskoðun.

Hverjum datt í hug að þaðan kæmi eitthvað sem máli skipti?

Muna menn ekki eftir hvernig ríkisendurskoðandi stóð að málum þegar þingnefnd fór þess á leit við stofnunina að hún gerði úttekt á útreikningunum sem voru látnir réttlæta aðkomu ríkisins að Vaðlaheiðargöngum.

Ríkisendurskoðandi neitaði að láta stofnun sína vinna erindið og bar því við það væri ekki á verksviði hennar og hann sjálfur væri vanhæfur til verksins vegna tengsla sinna við mág sinn, Kristján Möller fyrrverandi samgönguráðherra, sem sat í stjórn Vaðlaheiðarganga.

Skilningsleysi ríkisendurskoðanda á stjórnsýslunni virtist með ólíkindum. Ef forsvarsmaður stofnunar er persónulega vanhæfur þá á auðvitað að setja annan til að vinna verkið. Stofnunin verður ekki vanhæf. Og ef forsvarsmaðurinn er persónulega vanhæfur þá má hann ekki sjálfur ákveða að verkið sé ekki á verksviði stofnunarinnar. Auðvitað átti að fá annan mann til að svara erindinu. Ríkisendurskoðandi átti að óska eftir því forsætisnefnd alþingis að annar maður yrði settur ríkisendurskoðandi til að svara beiðni þingnefndarinnar.

Þetta annað hvort skildi ríkisendurskoðandi ekki, eða treysti því að hvorki þingmenn né fréttamenn skildu.

Fréttamönnum datt ekki einu sinni í hug að spyrja hvernig farið yrði að ef Kristján Möller yrði aftur samgönguráðherra. Hvort ríkisendurskoðun myndi þá ekki endurskoða samgönguráðuneytið, bara vegna þess að ríkisendurskoðandi persónulega væri vanhæfur.