Vefþjóðviljinn 183. tbl. 18. árg.
Í gær gekk í gildi fríverslunarsamningur Íslands og Kínverska alþýðulýðveldisins. Margir hafa fagnað honum, þar sem hann beri með sér „gríðarleg tækifæri“. Meðal þeirra sem fagnar samningnum ákaflega er Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra, sem ritaði langa grein í Morgunblaðið og aðra í Fréttablaðið til að láta í ljós ánægju sína.
Fríverslun hefur alla kosti umfram tollamúra, vörugjöld og aðrar slíkar hindranir. Á þessum samningi er hins vegar sá galli að hann er gerður við kommúnistastjórnina í Peking og kannski á annað hugtak en fríverslun betur við um viðskipti við slík ríki og mörg fyrirtæki þar sem eru beint og óbeint á vegum alræðisstjórnarinnar. Þingmenn, sem skömmu áður kröfðust þess að íslenskir ráðamenn yrðu ekki viðstaddir vetrarólympíuleikanna í Rússlandi vegna þarlendra laga um samkynhneigð, voru ákafastir í samningagerð við kommúnistastjórnina í Kína.
Ísland var raunar ekki eina Evrópuríkið sem gerði slíkan samning. Sama dag tók gildi fríverslunarsamningur Kína og Sviss, en Ísland og Sviss eru núna einu Evrópuríkin með slíkan fríverslunarsamning við Kína.
Ástæðan fyrir því að bæði Ísland og Sviss gátu upp á sitt eindæmi gert slíkan fríverslunarsamning við þetta langfjölmennasta ríki í veröldinni er einföld. Bæði löndin eru frjáls og fullvalda og hafa ekki lokað sig inni í tollabandalagi eins og Evrópusambandinu. Ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu hefði því ekki verið heimilt að gera slíkan fríverslunarsamning. Þeir sem fagna fríverslunarsamningnum sem mest geta því verið fegnir að Evrópusinnum hefur ekki enn tekist að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Svo lengi sem tekst að hindra slíka inngöngu getur Ísland áfram gert sína eigin samninga við hvert það ríki sem vill semja við það. Og þannig á það að vera.