Vefþjóðviljinn 182. tbl. 18. árg.
Eftir um 13% hækkun á vísitölu neysluverðs á árunum 2008 og 2009, samsvarandi hækkun á verðtryggðum lánum ásamt lækkun fasteignaverð töldu margir að vegur óverðtryggðra íbúðarlána myndi vaxa því fólk myndi ekki kæra sig um þá áhættu sem fylgir verðtryggðum lánum.
Í frétt Viðskiptablaðsins í gær sagði hins vegar frá:
Einungis 13,9% af nýjum íbúðalánum bankakerfisins á þessu ári eru óverðtryggð lán með föstum vöxtum. Þetta kemur fram í tölum Seðlabankans um bankakerfið sem uppfærðar voru á mánudaginn. Um 19,3% nýrra útlána eru verðtryggð lán með breytilegum vöxtum, 20,5% óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum og 46,2% nýrra útlána eru með föstum verðtryggðum vöxtum.
Já hví skyldu menn taka óverðtryggð lán nú þegar búið er að skapa fordæmi fyrir því að ríkissjóður fyrir hönd skattgreiðenda taki áhættuna af verðtryggðum lánum fólks?
Með „leiðréttingunni“ voru verðtryggð lán gerð girnilegri en ella. En þó er það stefna Framsóknarflokksins að útrýma verðtryggðum lánum.
Vinsamlega hættið að borða pylsur, við bjóðum peningagjöf og skattaafslátt með hverjum pylsupakka.