Vefþjóðviljinn 158. tbl. 18. árg.
Höftin maður? Ha hvaða höft?
Hvaða breytingu sér hinn almenni Íslendingur helsta haftatímanum síðustu sex árin? Hver er helsti munurinn á lífi hans áður og eftir að fjármagnshöft voru lögð á? Jú hann er kominn með heiminn í lófann með alvöru snjallsíma og getur sótt nánast hvaða efni sem er hvarvetna úr heiminum í sjónvarpið sitt. Því til viðbótar hefur aldrei verið jafn auðvelt og ódýrt að ferðast til og frá landinu.
Það er því hætt við að gæðin sem markaðurinn færir mönnum yfirskyggi algerlega fjármagnshöft og annað rugl sem ríkisvaldið býður upp á.
Skaðinn af fjármagnshöftunum er að miklu leyti ósýnilegur, viðskipti og fjárfestingar sem aldrei urðu og almenningur verður ekki var við með beinum hætti. Það er ólíklegt að menn sakni þess sem þeir kynntust aldrei.
Þess vegna er lítill áhugi á því meðal almennings að rífa plásturinn af. Á síðasta ári fóru til að mynda fram þingkosningar án þess að það væri nánast rætt – hvað þá að það væri mál málanna – hvort, hvernig og hvenær fjármagnshöftunum yrði aflétt.
Það er helst von til þess að hagsmunir rétthafa í lífeyrissjóðum veki menn til umhugsunar um þessi mál. Lífeyrissjóðir geta ekki fjárfest erlendis á meðan landið er lokað. Hver vill verða sjötugur og eiga ekki annan lífeyri en íslenskar krónur sem ríkissjóður Íslands hefur tekið að láni?