Vefþjóðviljinn 156. tbl. 18. árg.
Sú stefna afskiptasamra stjórnmálamanna (þessara sem gjarnan kalla sig þó frjálslynda) að gera öll mál að skipulagsmálum kristallast í umræðunni um mosku í Reykjavík.
Týr Viðskiptablaðsins skrifar um moskumálið í dag og segir meðal annars:
Að mati Týs er þetta mál allt enn eitt dæmi um það hvernig pólitíkin hefur smeygt sér inn í alla anga mannlegs samfélags og þangað sem hún á ekki að vera. Í eðlilegum heimi hefðu borgaryfirvöld nákvæmlega ekkert um það að segja hvar trúfélög byggja sín bænahús. Trúfélögin þyrftu sjálf, eins og aðrir, að finna lóð, kaupa hana og standa straum af byggingarkostnaði. Nú er svo komið að fólk telur sig ekki aðeins hafa þann sjálfsagða rétt til að hafa skoðun á hinum ýmsu hlutum, heldur einnig rétt til að hafa áhrif á það hvernig aðrir lifa sínu lífi. Það á ekki að koma neinum öðrum við en meðlimum viðkomandi trúfélags hvar það reisir sitt bænahús, mosku, kirkju eða kapellu.
Það verður sífellt áleitnari spurning hvernig taka má skipulagsvaldið af stjórnmálamönnunum og færa það til fólksins. Því miður hefur það verið þróunin innan íslenskra sveitarfélaga að þau eigi í raun allar lóðir, fari með skipulagsvaldið og geti þannig nánast gert það sem þeim sýnist.
Það sem vantar hér eru einingar – hverfi, götur eða húsaþyrpingar – með skýrum eignarrétti þar sem fyrir liggja samningar um hvernig hlutirnar eigi að vera. Aðeins þannig er tryggt að hverfi séu ekki eyðilögð þegar Hjálmar Sveinsson og verktakarnir mæta á svæðið með hugmyndir um að „bæta borgarsamfélagið“ með þéttingu. Það þarf að loka þessa stjórnmálamenn með skipulags- og þéttingarþráhyggjuna úti, sama úr hvaða flokki þeir eru.