Vefþjóðviljinn 154. tbl. 18. árg.
Það vantaði ekki vondar hugmyndir fyrir kosningar og ekki minnkar framboðið á þeim eftir þær.
Nú berast þær fréttir úr bæjarmálunum í Hafnarfirði að „Björt framtíð“ vilji samstarf allra flokka sem náðu kjöri í bæjarstjórnina og oddviti Samfylkingarinnar bætti um betur með þeirri hugmynd að fá þá flokka sem ekki hlutu nægt fylgi til að komast í bæjarstjórnina einnig að stjórn bæjarins. Þess verður væntanlega skammt að bíða að vinstri grænir bjóði þeim sem ekki tókst að bjóða fram lista aðild að stjórn bæjarins og svo þeim kjósendum sem sáu sér ekki fært að mæta á kjörstað.
Vafalaust þykja þetta allt gríðalega flottar lýðræðishugmyndir á nýrri öld og til marks um „samstarf þvert á flokka“. En þá eru menn líka að gleyma því að lýðræðið gerir ekki aðeins ráð fyrir að kjörin sé stjórn heldur einnig stjórnarandstaða.
Eins og það kann að hljóma vel að allir vinni saman að stjórn bæjarins hlýtur það að vega þyngra að stjórnin njóti lýðræðislegs aðhalds frá virkri stjórnarandstöðu.