Miðvikudagur 21. maí 2014

Vefþjóðviljinn 141. tbl. 18. árg.

Hvenær ætli stjórnmálamenn byrji að lofa mötuneytum fyrir alla, á kostnað hins opinbera?

Nú keppast stjórnmálamenn við að lofa opinberum leiguíbúðum. Nú á að byggja og byggja og svo að leigja. Gera sem flesta að leiguliðum hins opinbera.

En hvað annað hafa stjórnmálamenn,einkum á vinstrivængnum, gert undanfarin ár?

Þeir hafa lagt kvaðir og álögur á húseigendur,húsbyggjendur og þá sem leigja út fasteignir.

Fasteignaskattar eru háir. Þeir eru almennt ekki lækkaðir, þótt Árborg undir forystu Sjálfstæðisflokksins og Eyþórs Arnalds sé þar undantekning.

Vinstristjórnin breytti byggingarreglugerðinni svo dýrara varð að byggja hús.

Fjármagnstekjuskatturinn var hækkaður,en hann leggst meðal annars á tekjur af húsaleigu.

Hvaða áhrif hefur það þegar fasteignasköttum er haldið háum, byggingarkostnaður hækkar og skattur á húsaleigutekjur er hækkaður?

Leigusalinn þarf hærri leigutekjur.

Þeir stjórnmálaflokkar, sem þykjast ætla að bæta úr húsnæðisvanda fólks á leigumarkaði, fordæma þeir ekki örugglega hækkun fjármagnstekjuskattsins?

Ætlar fólk að kjósa þá flokka sem á þingi hækka skatta á húsaleigutekjur en í sveitarstjórn ætla að bæta ástand á leigumarkaði?