Helgarsprokið 11. maí 2014

Vefþjóðviljinn 131. tbl. 18. árg.

Kostnaðurinn við stríðið gegn fíkniefnum mælist ekki aðeins í peningum heldur mannslífum, mannréttindabrotum og stjórnmálalegri upplausn.
Kostnaðurinn við stríðið gegn fíkniefnum mælist ekki aðeins í peningum heldur mannslífum, mannréttindabrotum og stjórnmálalegri upplausn.

Það vantar yfirleitt ekki göfug og háleit markmið í stjórnarstefnur. Þannig eru þær að minnsta kosti kynntar fyrir almenningi. Hver gæti til að mynda verið andvígur fallegu markmiði eins og því að losa land við fíkniefnadjöfulinn? Er yfirleitt nokkuð sem mælir gegn því að nánast allt sé reynt í slíkri baráttu góðs og ills?

Vefþjóðviljinn hefur raunar mælt gegn því á átjánda ár að einstaklingsfrelsið sé takmarkað með fíkniefnabanni, að friðhelgi einkalífs sé rofin með leit lögreglu og jafnvel hermanna að fíkniefnum, að glæpamenn fái þannig í raun einkarétt á sölu fíkniefna og fíkniefnaneytendum sé varpað ofan í undirheimana.

Á allra síðustu árum virðast sífellt fleiri átta sig á að göfug markmið nægja ekki alltaf, stjórnvaldsaðgerðir hafa yfirleitt óvæntar afleiðingar og í tilviki fíkniefnabannsins eru þær hrikalegar.

London School of Economics gaf til að mynda nýlega út skýrsluna Ending the Drug Wars. Um er að ræða ritgerðasafn sem hefst á yfirlýsingu tuttugu heimskunnra einstaklinga þar sem segir meðal annars:

Það er tímabært að ljúka „stríðinu gegn fíkniefnum“ og nýta hina miklu orku sem eytt er í það í nýja stefnu sem studd er reynslu og rannsóknum.

Það hefur leitt af sér gríðarlegt hliðartjón og neikvæðar efnahagslegar afleiðingar að nota afl og stríðsvélar í „stríðinu gegn fíkniefnum“. Meðal þessara afleiðinga eru ótrúlegur fjöldi fanga í Bandaríkjunum, hryllileg refsiharka í Asíu, gríðarleg spilling og stjórnmálalegur óstöðugleiki í Afgangistan og Vestur-Afríku, skelfilegt ofbeldi í rómönsku Ameríku, HIV faraldur í í Rússlandi, skortur á verkalyfjum víða um heiminn og kerfisbundin mannrétindabrot um allan heim.

Þessi stefna hefur siglt sjálfri sér í strand. Rannsóknir hafa leitt í ljós að verð á fíkniefnum hefur lækkað og styrkur efnanna að aukast þrátt fyrir að stórauknu fé hafi verið eytt í löggæslu vítt og breitt um heiminn. Það er ekki hægt að réttlæta það lengur að eyða gríðarlegum fjármunum og orku í refsistefnuna gegn fíkniefnum, ekki síst þegar haft er í huga að verja mætti þessu fé til alls kyns heilbrigðismála sem vitað er að gera raunverulegt gagn.

Sameinuðu þjóðarnar hafa alltof lengi reynt að troða þessari einstrengingslegu stefnu sinni upp á allan heiminn. Þær verða að skipta um kúrs og móta nýja alþjóðlega stefnu sem gerir ráð fyrir að mismunandi leiðir séu fetaðar í ólíkum löndum.

Í raun ætti ekki að þurfa annarra vitna við um hve hörmulega hefur tekist til um refsistefnuna í fíkniefnamálum en að fangelsin sem notuð eru til að refsa mönnum fyrir brot á fíkniefnabanninu eru fljótandi í dópi.