Vefþjóðviljinn 122. tbl. 18. árg.
Menn segja og gera ýmislegt 1. maí. Birgitta Jónsdóttir alþingismaður fór til dæmis á kaffihús og keypti sér þar kaffi. Daginn eftir sagði hún á alþingi að starfsfólkinu þar hefði fundist óeðililegt að ekki hefði verið frí þennan dag.
Hugsanlega er ein skýring á því, hversu víða er opið þennan dag, sú að fólk vill eiga viðskipti á þeim degi eins og mörgum öðrum. Ýmsir vilja til dæmis fara á kaffihús og kaupa sér bolla. Ef enginn gerði það, yrði sennilega fáum fyrirtækjum haldið opið. Margt starfsfólk vill vafalaust geta unnið á þessum degi og fá laun og jafnvel vaktaálag, fremur en frídag.
Sama dag, 1. maí, talaði formaður BSRB gegn skattalækkunum, enda gætu þær orðið til þess að minna fé færi í „almannaþjónustuna“. Og almannaþjónustan væri eitthvað sem „við“ vildum standa vörð um.
Þegar menn tala um velferðarkerfi og almannaþjónustu þá gæta menn sín yfirleitt á því að nefna hlutina ekki réttum nöfnum. Yfirleitt er um það að ræða að menn vilja að annað fólk borgi einhver útgjöld þeirra sjálfra. „Ég vil efla almannaþjónustuna“, þýðir oft í raun „Ég vil að aðrir borgi hluta af útgjöldum mínum.“
Með þessu er ekki sagt að ekki eigi að hjálpa illa stöddu fólki að eiga fyrir ýmsum nauðþurftum, hvort sem það er matur, húsaskjól, lyf, lækniskostnaður eða eitthvað annað sem tekin er pólitísk ákvörðun um að menn geti fengið stuðning til að fá. En menn eiga bara að segja hvað það er sem þeir berjast fyrir.
Ein ástæða þess hversu „almannaþjónustan“ þenst út, er hversu sjaldan hlutirnir eru nefndir réttum nöfnum. Þetta á alls ekki einungis við um „almannaþjónustu“ heldur eykst sífellt það vandamál að menn nefna ýmsa hluti villandi nöfnum, eða nöfnum sem eru til þess fallnir að mynda með fólki skoðun á gildi þeirra. Áberandi dæmi er þegar menn segjast berjast fyrir „leiðréttingu“. Verkalýðsfélög og fréttamenn segja kröfur um kjarabætur séu krafa um „leiðréttingu launa“, þótt launin séu alveg rétt. Laun verða ekki röng við það að launþeginn vilji að þau hækki. Eða við það að laun einhvers annars hafi hækkað. Með sama hætti kynnir ríkisstjórnin „leiðréttingu“ húsnæðislána, þegar hlutlaust væri að tala um „lækkun“ skuldanna. Vinstristjórnin innleiddi „auðlegðarskatt“, þegar „eignaskattur“ hefði verið hlutlausara orðalag.