Vefþjóðviljinn 117. tbl. 18. árg.
Marga dreymir um að Reykjavík verði líkari evrópskum stórborgum, með svo þéttri byggð að hún beri hvers kyns þjónustu í göngufæri. Þetta sjónarmið er almennt yfirgnæfandi í umræðunni en eins og dæmin sanna þá eru einstakar þéttingarhugmyndir oft mjög umdeildar vegna andstöðu næstu nágranna. Afstaða nágranna hefur stundum verið nefnd NIMBY-ismi í háðungarskyni.
En er ekki sjálfsagt að menn vilji hafa eitthvað um það að segja hvernig bakgarður þeirra líti út? Þéttingarhugmyndir sem kollvarpa áratugagömlu hverfaskipulagi geta vissulega skert þau gæði sem menn töldu sig ganga að sem vísum þegar þeir keyptu fasteign. Því miður eru þessi gæði í fæstum tilvikum tryggð með beinum eignarrétti því borgin á flestar lóðir og fer með skipulagsvaldið. Aðgangur að stjórnmálamönnum ræður því miklu um afdrif einstakra framkvæmda því eitt er víst að þrátt fyrir allt hjal um íbúalýðræði mun íbúum aldrei verða treyst fyrir skipulagsmálum í næsta nágrenni við sig.
Til þess ber auðvitað að líta í þessu samhengi að þeir sem búa á Íslandi sækja yfirleitt ekki í skugga. Fyrir því eru náttúrulegar ástæður. Hér er sól það lágt á lofti að byggingar mega helst ekki vera meira en þrjár hæðir og ekki standa mjög þétt án þess að af þeim stafi myrkur, kuldi og vindstrengir. Í suðlægum borgum er þessu jafnvel öfugt farið. Þar vilja menn jafnvel byggja svo hátt og þétt að skuggsælt verði milli húsa.
Það er því nokkur kúnst að þétta byggð hér á landi án þess að loka á sólina því ekki er sjálfgefið að allir kjósi fremur þéttleikann en birtuna og ylinn. Austurstræti er dæmi um þétta en óvistlega og kuldalega götu, húsin sunnan hennar eru of há og/eða gatan of þröng til að sólarljósið nái til þeirra sem fara um götuna. Góð dæmi um sátt sjónarmiða um þéttleika og sólarljós eru auðvitað til í Reykjavík enda er borgin að mestu leyti lágreist. Sambyggðu þriggja hæða húsin við Ásvallagötu, Blómvallagötu, Brávallagötu, Hringbraut og Ljósvallagötu eru dæmi um nokkuð þétta byggð þar sem sólin nær vel til íbúa. Í hluta Seljahverfis og í Bökkunum í Breiðholti er viðleitni í sömu átt.
Og því má heldur ekki gleyma að ekkert hefur þétt byggð í landinu öllu jafn mikið og bygging úthverfa og nágrannabæja Reykjavíkur. Án þeirra væri líklega enginn að tala um Reykjavík sem borg sem gæti boðið upp á alla þjónustu.
En Reykjavík er almennt ekki þétt og verður það vart næstu áratugina þótt villtustu draumar um þéttingu byggðar nái fram að ganga. Jafnvel þótt öll fólksfjölgun í landinu næstu áratuginu verði innan núverandi byggðar á höfuðborgarsvæðinu mun það ekki breyta þeirri staðreynd að höfuðborgarsvæðið verður dreifð byggð. Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur er engu að síður farinn að haga sér eins og borgin sé svo þétt að allir geti rölt á inniskónum eftir helstu þjónustu.
Hinar umdeildu breytingar á Hofsvallagötu, Snorrabraut og Borgartúni eru til marks um að borgarfulltrúar virðast telja að flestir geti til að mynda komist af án bíls.
Þannig er það þó ekki og langflestir borgarbúar nota bíl bæði vegna erinda sinna innan bæjar og ekki síður til þess að fara um landið. Að tefja för bíleigenda er því ekki aðeins sóun á tíma þeirra heldur eykur það eldsneytiseyðslu og þar með mengun og útblástur sem margir ákafir þéttingarmenn hafa þó áhyggjur af.