Vefþjóðviljinn 116. tbl. 18. árg.
Í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi tjáði Daði Már Kristófersson umhverfis- og auðlindahagfræðingur í Háskóla Íslands sig um „sóun“ fólks á matvælum en áhyggjufullir fræðimenn hafa fundið það út að allt að þriðjungur matvælaframleiðslu endi að lokum í ruslinu. Þetta mikla böl var til umræðu á degi umhverfisins í umhverfisráðuneytinu í gær.
Daði segir að í þriðja heiminum geti þekkingarleysi og erfiðleikar við að geyma mat verið ástæða matarsóunar. „En hjá okkur snýst þetta raunverulega um það að við getum hent matvælum. Þau eru raunverulega ekki nógu dýr til að þau skipti okkur einhverju raunverulegu máli. Það þarf að umbylta skattkerfi heimsins til að fókusera meira á grænan skatt. Skatt sem að raunverulega býr til verð á umhverfisgæði.“
Líklega hefur það komið mörgum áhorfendum á óvart að þeir borguðu ekki nóg fyrir matinn, ekki síst hér á landi.
Og ef menn vilja loks draga úr sóun í landbúnaði hvernig væri að byrja á því að afnema niðurgreiðslur skattgreiðenda til landbúnaðar í stað þess að leggja á nýja „græna“ skatta?
Þegar keypt er í matinn á heimilum er líka að ýmsu að hyggja. Ekki síst eftir að úrval matar varð svo gríðarlegt að það hvarflar ekki að nokkrum manni lengur að bera fram sama réttinn tvisvar í viku. Til að elda tugi mismunandi rétta í hverjum mánuði þarf alls kyns aðföng, sósur, fræ, krydd og jurtir, sem hafa mismikið geymsluþol. Þetta eykur auðvitað líkur á því að eitthvað „renni út“.
Svo er líka annar kostnaðaður sem heimilin vilja komast hjá með því að kaupa ríflega af öllu og það er að kostnaðurinn við að gera sér aukaferð út í búð, bæði tímasóunin og kostnaður við akstur. Með fullri virðingu fyrir hagfræðideildum háskólanna þá hafa heimilin sjálf líklega betri upplýsingar um hvernig þau telja tíma sínum og fjármunum best varið að þessu leyti.
Að lokum má svo kannski velta því upp hvert þetta hlutfall ónýttra matvæla væri ef menn ættu ekki kost á að pakka alls kyns mat í næfurþunnt plast sem margfaldar endingartíma þess. En slíkar umbúðir eru þó eitt af því sem þeir sem halda upp á dag umhverfisins hatast mest við.