Vefþjóðviljinn 104. tbl. 18. árg.
Árið 2007 velti Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, því fyrir sér að bjóða sig fram í fyrsta sæti framboðslistans, gegn Guðna Ágústssyni sem þar sat. Til að kanna fylgi hans var ekki efnt til skoðanakönnunar, því flestir vita í raun að ekkert er að marka þær þegar menn hugleiða ný framboð. Nei, til þess að eitthvað yrði á þessu byggjandi var efnt til undirskriftasöfnunar í kjördæminu, þar sem menn þurftu að skrifa nafn sitt á lista sem svo var afhentur.
Þrjúþúsund og fimmhundruð manns skrifuðu undir áskorun á Hjálmar Árnason að gefa kost á sér í fyrsta sætið. Hjálmar gat auðvitað ekki skorast undan, enda var þetta alveg í samræmi við þá undiröldu sem hann skynjaði og allmargir menn höfðu nefnt við hann, margoft hver.
Svo var kosið og Hjálmar fékk nákvæmlega 1.421 atkvæði í fyrsta sætið. Meira en helmingur þeirra sem höfðu beinlínis hvatt hann til framboðs, skriflega og undir fullu nafni, kaus hann ekki.
Svo eru til stjórnmálaskýrendur sem halda að það sé eitthvað á þvi byggjandi að einhver hópur manna segi að hann muni, eftir rúm þrjú ár, hugsanlega geta hugsað sér að kjósa flokk sem Benedikt Jóhannesson langar til að stofna utan um það áhugamál sitt að loka Ísland inni í evrópsku tollabandalagi sem jafnt og þétt þróast í átt til sambandsríkis sem hvorki þing né meirihluti landsmanna vill ganga í.
Það er samt alveg stórfurðulegt að ekki mælist meiri stuðningur við hugmyndina um þennan nýja flokk. Samkvæmt könnunum vill fjöldi manna að Ísland sæki um aðild að sambandi sem sömu menn vilja alls ekki að Ísland gangi inn í. Hvað er meira við hæfi en að þessir sömu menn séu mjög áhugasamir um að stofnaður verði flokkur, sem þeir munu svo aldrei kjósa?
En sjálfstæðismenn hljóta að vona af þessari flokksstofnun yrði. Þá myndu núverandi forystumenn þeirra hugsanlega hætta að láta undan frekju og kröfugerð þessara fáu Evrópusinna. Sú samfellda undanlátssemi hefur stórskaðað Sjálfstæðisflokkinn undanfarin ár, sem sást best af því að fylgi flokksins hríðféll eftir Icesave-dóminn í lok janúar 2013. Við þann dóm þustu væntanlegir kjósendur Sjálfstæðisflokksins yfir til Framsóknarflokksins. Ef forysta Sjálfstæðisflokksins hættir loksins að láta Evrópusinnana hræða sig, þá á flokkurinn kannski von um að fá þetta fólk til baka.