Helgarsprokið 13. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 103. tbl. 18. árg.

Hvenær verður Steingrímur J. Sigfússon spurður hvort það hafi verið eðlileg og jafnvel viðtekin venja að hagsmunaaðilar skrifuðu lagafrumvörp sem hann sem ráðherra lagði fram? Var það jafnframt til siðs að leyna þingið hvar frumvörp voru samin?
Hvenær verður Steingrímur J. Sigfússon spurður hvort það hafi verið eðlileg og jafnvel viðtekin venja að hagsmunaaðilar skrifuðu lagafrumvörp sem hann sem ráðherra lagði fram? Var það jafnframt til siðs að leyna þingið hvar frumvörp voru samin?

Síðastliðið haust kom það upp úr kafinu að fyrirtæki nokkurt sem á mikilla hagsmuna að gæta hafði skrifað lagafrumvarp um að lögbinda notkun „endurnýjanlegs eldsneytis“ og sent Steingrími J. Sigfússyni þáverandi atvinnuvegaráðherra. Markmið frumvarpsins var að færa fyrirtækinu nokkur hundruð milljóna króna viðskipti á ári með því að þvinga neytendur til að kaupa framleiðslu þess, metanól sem ætlað var til íblöndunar í bensín á bíla landsmanna.

Ráðuneyti Steingríms gerði engar breytingar sem máli skipta áður en frumvarpsdrögin voru send til umsagnar þeirra er málið kann að varða. Ráðuneytið hafði jafnvel ekki fyrir því að afmá nafn starfsmanns metanólframleiðandans úr „properties“ í Word-skjalinu.

Frumvarpið var svo samþykkt á þingi án nokkurrar umræðu í þingsal við þinglok vorið 2013.

Fréttablaðið gerði þessu máli ágæt skil síðastliðið haust. Aðrir fjölmiðlar sinntu því lítt utan Kastljóss Ríkissjónvarpsins sem fjallaði um þær óvæntu afleiðingar laganna að í stað þess að tryggja metanólframleiðandanum viðskiptin, sem ætlunin var, leiða þau til þess að flytja þarf til landsins mjög dýra jurtaolíu til íblöndunar í Dieselolíu. Þannig geta söluaðilar uppfyllt kröfur laganna um 3,5% hlutfall svonefnds endurnýjanlegs eldsneytis.

Allir tapa á þessu nema hinn erlendi framleiðandi á dýru og fínu jurtaolíunni. Ríkissjóður verður af skatttekjum því ekki er aðeins skylda að nota 3,5% endurnýjanlegt eldsneyti heldur er sá hluti einnig skattfrjáls. Vegna þess hve jurtaolían er dýr njóta bíleigendur þó ekki skattfrelsisins í lægra eldsneytisverði. Gjaldeyrisútgjöld þjóðarinnar aukast líklega um nokkur hundruð milljónir króna á ári og er það athyglisvert að til sé gjaldeyrir til þess arna á meðan hann er almennt skammtaður í landinu.

En það sem Vefþjóðviljinn er að velta fyrir sér í dag er hvort það geti verið að Steingrímur J. Sigfússon verði aldrei spurður um það hvort það hafi verið eðlileg vinnubrögð í ráðuneyti hans að fá fullbúið frumvarp sent frá hagsmunaaðila og senda það áfram efnislega óbreytt fyrir Alþingi án þess að þingmönnum væri ljóst hvernig í pottinn væri búið.

Atvinnuvegnefnd þingsins var jafnvel niðurlægð með þeim ótrúlega skrípaleik að höfundur frumvarpsins kom fyrir nefndina og veitti grunlausum þingmönnum fallega umsögn um eigið verk.

Er jafnframt hugsanlegt að Steingrímur J. Sigfússon hafi sem ráðherra tekið við fleiri frumvörpum frá hagsmunaðilum og sent þau lítt breytt fyrir þingið án þess að þinginu hafi verið kunnugt um hvaðan efni þeirra kom?

Það er auðvitað oft þannig að hagsmunaðilar koma að vinnu við gerð frumvarpsdraga en þá er það gert að öllum sjáandi, til dæmis með skipan nefndar um gerð slíkra draga þar sem helstu hagsmunaaðilar eiga fulltrúa.

Hið græna mál Steingríms J Sigfússonar um „endurnýjanlegt eldsneyti“ er hins vegar dæmi um eitthvað allt annað.

Verður hann aldrei spurður?