Vefþjóðviljinn 99. tbl. 18. árg.
Í dag er fagnað fjörutíu ára afmæli kaupstaðarréttinda Seltjarnarness. En Seltirningar hafa fleiru að fagna, en þeir greiða lægri skatta en margir aðrir landsmenn. Sveitarfélag þeirra leyfir þeim að halda eftir aðeins stærri hluta tekna sinna en mörg önnur sveitarfélög gera.
Útsvar á Seltjarnarnesi er 13,70%. Til samanburðar er lögbundið hámarksútsvar í landinu 14,52% og það leggja mörg fjölmennustu sveitarfélögin á íbúa sína, þar á meðal Reykjavíkurborg, en einnig Hafnarfjörður svo annað dæmi sé tekið um fjölmennt sveitarfélag sem tekur eins mikið og það getur úr vasa launþega. Kópavogur er örlitlu betri með 14,48% útsvar.
Ekki átta allir sig á því hversu sveitarfélögin eru áköf í skattlagningu á íbúana. Útsvar er miskunnarlaust lagt á launafólk í landinu og þeir sem vilja bæta fjárhag launamanna ættu að berjast fyrir lækkun útsvars, rétt eins og lækkun tekjuskatts til ríkisins.
Nú er stutt í sveitarstjórnarkosningar og auðvitað ættu kjósendur að brýna frambjóðendur til skattalækkana og greiða þeim atkvæði sitt sem þeir treysta best til að lækka útsvarið eða aðra skatta. Það er eina leiðin til að knýja á um breytingar á skattastefnu sveitarfélaganna, sem undanfarin ár hefur þróast í að heimta sem allra mest af íbúunum.
Nokkur sveitarfélög kunna sér meira hóf í skattlagningu en önnur. Seltjarnarnes heimtar 13,70% af mánaðarlaunum íbúa sinna í hverjum mánuði og er það að sjálfsögðu ekki lítið, þótt það sé minna en í Reykjavík. Garðabær lætur sér einnig nægja 13,70%, Vestmannaeyjar taka 13,98%, Fljótsdalshreppur tekur 13,20%, Grindavík tekur 13,99% og Kjósarhreppur tekur 13,73% svo dæmi séu tekin. Og að sjálfsögðu er rétt að nefna þá sem standa sig best, Skorradalshreppur 12,44%, Grímsnes- og Grafningshreppur 12,44% og Ásahreppur 12,48%.
Það munar um allt í skattalækkunum. Á hverju ári þurfa sveitarstjórnarmenn að gera upp við sig hvort þeir vilja að peningarnir verði eftir í vasa launþegans sem vann fyrir þeim, eða renni í borgarsjóð og bæjarsjóð og fari þaðan í að reisa stúkur og hjólreiðastíga. Kjósendur eiga að hafa gildismat frambjóðenda í huga þegar þeir velja milli flokka á kjördag, og þegar þeir velja milli frambjóðenda í prófkjöri. Skattalækkun er kjarabót.