Mánudagur 7. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 97. tbl. 18. árg.

Forystumenn flokkanna þriggja sem stóðu að ríkisstjórninni sem tók við völdum 1. febrúar 2009.
Forystumenn flokkanna þriggja sem stóðu að ríkisstjórninni sem tók við völdum 1. febrúar 2009.

Auðvitað skila „skuldaleiðréttingar“ engu fylgi í könnunum. Hinum rangnefndu „leiðréttingum“ var lofað fyrir síðustu kosningar. Viðföng í skoðanakönnunum eru að hugsa um næstu kosningar. Ekki síðustu kosningar.

Jafnvel áður en hún kemst á koppinn er skuldaleiðréttingin komin á sorphauga sögunnar með 90% lánunum, skjaldborginn og annarri þjóðfélagsverkfræði vinstri flokkanna.

Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá hugmyndum um skuldaleiðréttingar:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hefur sagt að menn hafi misst af tækifæri til „almennrar skuldaleiðréttingar“ árið 2009 .

Hvaða menn misstu af því tækifæri? Hverjir klúðruðu því Sigmundur?

Í janúar 2009 bauð Sigmundur Davíð Samfylkingunni og VG að mynda stjórn með stuðningi Framsóknarflokksins. Jóhanna og Steingrímur þáðu kostaboð Sigmundar sem fylgdu þau skilyrði að efnt yrði til stjórnlagaþings og boðað yrði til kosninga eigi síðar en í apríl. Sigmundur Davíð var þá utan þings og fátt mikilvægara í miðju bankahruni en að ráða bót á því.

Næstu mánuði sátu Steingrímur og Jóhanna í skjóli Framsóknarflokksins en aðhöfðust ekkert sem nálgast að vera kallað „almenn skuldaleiðrétting“, hvað þá „20% leið.“

Framsóknarmenn sjálfir létu þannig það sem þeir kalla tækifæri til almennrar skuldaleiðréttingar sér úr greipum ganga vorið 2009. Jóhanna og Steingrímur sátu í skjóli þeirra mánuðum saman án þess að nýta færið.

En þau skipuðu að vísu Svavar Gestsson formann Icesave-samninganefndarinnar á meðan þau nutu skjólsins af Framsóknarflokknum. Svavari tókst næstum að ná fram almennri skuldaleiðréttingu fyrir ríkissjóði Bretlands og Hollands.

Var það stjórnlagaþingið, skjaldborgin, ESB umsóknin eða Svavar Gestsson sem réð því að Sigmundur Davíð studdi Steingrím og Jóhönnu til valda vorið 2009?