Helgarsprokið 6. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 96. tbl. 18. árg.

Arnljótur Ólafsson.
Arnljótur Ólafsson.

Samtök atvinnulífsins héldu ársfund sinn í síðustu viku. Þar hélt formaður samtakanna ræðu þar sem hann vitnaði meðal annars í bókina Auðfræði, eftir séra Arnljót Ólafsson, þar sem segir að hver sem vilji vera ör á hjálpinni og góðgerðaseminni og útbýta til þess almannafé, hljóti að vera jafnör á aukningu tolla og íþyngd skatta. „Þetta mega stjórnmálamennirnir hugleiða áður en þeir leggja fram tillögur um ný útgjöld eða nýjar framkvæmdir, hvort sem það eru jarðgöng, vegaframkvæmdir, ný áburðarverksmiðja eða háhraðalest og flutningur flugvallar. Það er auðvelt að vera stórhuga fyrir annarra manna fé.“

Það er alveg rétt hjá formanni Samtaka atvinnulífsins að „það er auðvelt að vera stórhuga fyrir annarra manna fé“. Það er algengt og ekki bara um stjórnmálamenn, að menn vinni góðverk sín á annarra kostnað. Menn heimta að skattgreiðendur haldi úti menningarstofnunum, íþróttafélögum og öllu hinu sem þeir telja að endilega verði að reka, en einhverjir aðrir en þeir sjálfir eigi að borga. Það er minna um almennar fjársafnanir til að reka launasjóð rithöfunda eða borga nýja stúku á einhvern fótboltavöllinn. Það er bara heimtað að skattgreiðendur sjái um þetta.

En hvernig er með forsvarsmenn atvinnulífsins sjálfs, þeir eru væntanlega yfir allt slíkt hafnir. Varla eru þeir að heimta neitt sem kynni að gagnast þeirra eigin fyrirtækjum en verða byrði á öðrum?

Hvernig er nú til dæmis með inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið?
Ef Ísland gengi í Evrópusambandið myndi landið afsala sér stórum hluta af fullveldi sínu. Evrópskar reglur, sem íslenskir kjósendur hefðu ekkert um að segja, yrðu raunveruleg yfirþjóðleg lög á Íslandi, sem ekki er í dag. Ókosnir evrópskir embættismenn, tilnefndir af ráðamönnum stórþjóðanna, myndu skipa Íslendingum fyrir í íslenskum málum á Íslandi. Íslenskir kjósendur gætu aldrei náð til þessara ókosnu kommisara. Fullveldi Íslands myndi svo halda áfram að skerðast og skerðast, þar sem þróunin innan Evrópusambandsins er hröð í þá átt. Jafnvel Bretum tekst ekki að standa gegn þeirri þróun gegn bresku hagsmunum. Breska þingið ræður ekki við ofureflið í Brussel.

Engu að síður er enginn friður fyrir nokkrum forsvarsmönnum í íslensku atvinnulífinu sem heimta að Ísland haldi áfram að vera umsóknarríki í Evrópusambandið. Nú segjast þeir endilega verða að „sjá samninginn“, svona eins og þeir hafi ekki hugmynd um hvað Evrópusambandsaðild þýðir. Hafa þeir þó sumir barist fyrir í mörg ár, og þurftu ekki að hafa séð neinn „samning“ til að hefja þá baráttu.

Þeir telja víst mögulegt að þeirra eigin fyrirtæki, eða þeirra eigin starfsgrein, geti grætt eitthvað um stund á því að Ísland rynni í Evrópusambandið. Fyrir þann ávinning þeirra á Ísland að afsala sér fullveldi sínu og erlendir embættismenn að verða raunverulegir ráðamenn í landinu. Sumir ráðamenn í atvinnulífinu virðast hreinlega vilja að landið afsali sér fullveldinu af því að þá yrði ársuppgjörið hjá þeim sjálfum einfaldara.

Já, það er víst ekki erfitt að kaupa sér hugsanlegan rekstrarávinning ef það er hægt að borga fyrir hann með fullveldi annarra. Ef gjaldið er bara það að venjulegir Íslendingar þurfa um ókomin ár að lúta ókosnum erlendum embættismönnum og ótalmörg íslensk mál verða endanlega lögð í hendur erlendra ráðamanna, sem íslenskir kjósendur hafa ekkert um að segja, þá er það nú lítið gjald fyrir hugsanlegt hagræði á einhverju sviði fyrir einhver iðnfyrirtæki.

Það er alveg rétt að það er auðvelt að stórhuga fyrir annarra manna fé. Það er líka auðvelt að kaupa sér ímyndaðan rekstrarávinning með annarra manna fullveldi.

Að vísu er jafnvel sá ávinningur, sem atvinnulífsforkólfarnir sumir telja mögulegan, stórlega ofmetinn. En jafnvel þó svo væri ekki, þá kæmi ekki til greina að borga fyrir hann með fullveldisafsali og stórfelldum völdum ókosinna erlendra embættismanna yfir íslenskum málefnum. Opinbert vald á Íslandi á að vera í íslenskum höndum.

Meðal annars vegna þessa þarf ekki að standa í reiptogi um furðudrauminn um einhverjar einstakar undanþágur eða ímynduð hagræn áhrif Evrópusambandsaðildar á tiltekin fyrirtæki. Þeir sem vilja að Ísland verði áfram frjálst og fullvalda ríki, munu ekki framselja það fullveldi til Brussel, sama hversu ákaft verður reynt að fá þá til þess.