Vefþjóðviljinn 92. tbl. 18. árg.
Framboðslistar flokkanna vegna komandi sveitarstjórnarkosninga birtast nú einn af öðrum. Enginn skortur virðist á frambjóðendum sem ætla að gera „virkilega góða hluti“ og eru svo heppnir að vera á lista með „frábæru fólki“. Öllum frambjóðendum í fyrsta sæti líst alveg einstaklega vel á eigin frambjóðendahóp sem er góð blanda reynslubolta og nýs og öflugs fólks með ferskar hugmyndir. Já og kynjahlutföllin eru jöfn, ekki má gleyma því geysilega mikilvæga atriði.
En hvar er frambjóðandinn sem segir upphátt að sér finnist að borgin eða bærinn hans taki til sín of stóran hlut af launum íbúanna? Hvar er frambjóðandinn sem segist munu berjast fyrir myndarlegri skattalækkun nái hann kjöri?
Er hann til? Í öllum þessum hópi frambjóðenda, sem allir hafa spennandi hugmyndir og ætla að gera borgina eða bæinn sinn „enn frábærari“, er þar einhvers staðar einhver sem segist ætla að lækka skatta?
Einhvers staðar?
Það er eins og menn haldi að sveitarfélögin skattleggi fólk ekki. Þó er staðreyndin sú að útsvarslækkun skiptir fleira fólk máli en tekjuskattslækkun ríkisins. Sveitarfélögin veita engan „persónuafslátt“, eins og ríkið gerir. Útsvarið er innheimt miskunnarlaust.
Fasteignareigendur þurfa svo að borga sífellt hækkandi fasteignaskatta og auðvitað skiptir slíkt máli þegar þeir, sem leigja út fasteignina sína, reikna út hversu hátt leigugjald þeir þurfa.