Þriðjudagur 1. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 91. tbl. 18. árg.

Nýjasta hefti Þjóðmála sem komið er út og fæst í Bóksölu Andríkis.
Nýjasta hefti Þjóðmála sem komið er út og fæst í Bóksölu Andríkis.

Eitt af því sem hver maður getur gert til að andæfa nær samfelldri vinstrivæðingu þjóðfélag er að kaupa og lesa tímaritið Þjóðmál, sem kemur út fjórum sinnum á ári og fjallar um ýmis stjórnmál og menningarmál. Vorhefti þessa árs kom út á dögunum og kennir þar ýmissa grasa.

Af efni þess má sérstaklega nefna greinina Aðför eftirlitsaðila að Kosti en þar fjallar kaupmaðurinn Jón Gerald Sullenberger um verslunarrekstur sinn og baráttuna við opinbera eftirlitsmenn. Jón segir í upphafi greinarinnar að eitt af markmiðunum með opnun verslunarinnar hafi verið að koma til móts við neytendur, þar sem úrvalið í íslenskum matvöruverslunum hafi verið ákaflega einhæft.

Það einhæfa úrval sé fyrst og fremst vegna „þeirrar stórundarlegu ákvörðunar fyrri stjórnvalda að innleiða athugasemdalaust og óbreytt reglugerðafargan Evrópusambandsins“ og segir Jón að sér skiljist að „vð séum ekki búin að sjá fyrir endann á þessu reglugerðafargani.“ Íslensk stjórnvöld taki upp allar evrópskar reglugerðir án þess að skoða og meta áhrif þess á íslenska neytendur, og er það eflaust rétt hjá honum, en meira vafamál hvenær íslenskir stjórnmálamenn verða nægilega pólitískir til að taka á því máli.

Hin áhugaverða grein kaupmannsins verður ekki rakin öll hér, en hann rekur ýmis dæmi um samskipti verslunarinnar við íslenska eftirlitsmenn Matvælastofnunar, en hann segir frá því að frá stofnun verslunarinnar „fyrir rétt rúmum fjórum árum hafa erindi og heimsóknir MAST verið 187. Já, 187. Það er þó aldrei að vita nema gæðastjóri Aðfanga, sem er í eigu Haga sem reka Bónus og Hagkaup, hafi eitthvað með þetta að gera, en hann hefur sent MAST margar kærur á okkur.“

Kostnaðurinn sem lagður er á verslunina, og sem skilar sér svo auðvitað í hærra vöruverði og minna úrvali, er af ýmsum ástæðum. Evrópusambandið á þar auðvitað stóran hlut. Kaupmaðurinn segir:

Í rekstri Kosts hef ég rekið mig á tvenns konar hindranir: Tæknilegar hindranir Evrópusambandsins, sem íslensk stjórnvöld hafa samþykkt, og síðan offors íslenska eftirlitsiðnaðarins sem helst má líkja við einelti, þar sem reglan er að sú að ég sé sekur maður fyrir það eitt að flytja til landsins amerískar matvörur. Ein af þessum hindrunum er innihaldslýsingar og merkingarmál.
Kostnaður við kröfur Evrópusambandsins um merkingar er gríðarlegur. Ég tel hann skipta hundruð milljólum króna á ári hverju. Við urðum að ráða til okkar matvælafræðing sem umbreytir innihaldslýsingum yfir í ESB-staðal. Einnig þurftum við að kaupa dýr tæki og ráða tvo starfsmenn í vinnu við að líma miða á dósir sem enginn les. Bandarísku vörurnar eru nú þegar með fullkomnar innihaldslýsingar og ef eitthvað er, mun einfaldari og auðskiljanlegri að mati viðskiptavina okkar en þær evrópsku, að ég tali nú ekki um þær íslensku. Ef sumar íslenskar framleiðsluvörur eru skoðaðar þá stendur nánast ekkert á pakkningunni.

Margt annað mætti rekja úr greininni eða þá úr öðrum greinum í Þjóðmálum. Það bíður, en vekja má athygli á því að í Bóksölu Andríkis má bæði fá áskrift að Þjóðmálum og kaupa stök hefti.