Miðvikudagur 19. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 78. tbl. 18. árg.

Þingmenn fóru hver um annan þveran í ræðustól Alþingis í dag til að setja ofan í við landeigendur sem dirfast að taka gjald af þeim sem vilja þramma um land þeirra. Þetta eru gullgrafarar, segja þingmenn.

Landeigendur eru þó að selja umferðarrétt um land sem þeir eiga. Þeir eru ekki að selja eitthvað sem þeir eiga ekki.

En hvað gera þingmenn? Leggja þeir ekki sérstakt gjald á þá sem veiða fisk í sjónum? Ekki á ríkið fiskinn. Ekki „þjóðin“ heldur, svona fyrir þá sem enn misskilja orð kvótalaganna um „sameign þjóðarinnar“.

Fyrir síðustu kosningar boðuðu stjórnarflokkarnir að þeir vildu lækka veiðigjaldið, sem hækkað hafði verið verulega í tíð vinstristjórnarinnar. Að sjálfsögðu hefur enn sem komið er orðið mun minna úr þeim efndum en boðað var fyrir kosningar, og örugglega stutt í að haldnir verði útifundir til að mótmæla þeim svikum á kosningaloforðum.

Meira að segja var efnt til undirskriftasöfnunar á netinu gegn breytingum sem gerðar voru á veiðigjaldinu í fyrra. Það væri nú fróðlegt að vita hversu margir þeirra sem skrifuðu undir mótmæli við því að stjórnarflokkarnir stæðu við örlítið brot af kosningaloforðum sínum í því máli, hafa jafnframt skrifað undir mótmæli við því að inngöngubeiðnin í Evrópusambandið verði afturkölluð.

Raunar mætti spyrja allt þetta ágæta fólk: Finnst þér að stjórnarflokkarnir eigi að standa við kosningaloforð um lækkun veiðigjalds?