Þriðjudagur 18. mars 2014

Vefþjóðviljinn 77. tbl. 18. árg.

Í gær var sagt frá því að það stefni í nokkur hundruð milljóna króna halla á rekstri Ríkisútvarpsins á þessu ári. 

Magnús Geir Þórðarson nýr útvarpsstjóri virðist strax ætla að grípa til róttækra aðgerða til að laga þessa stöðu eins og uppsagnir tíu (10) framkvæmdastjóra hjá stofnuninni bera með sér.

En Magnús sagði hins vegar þetta í hádegisfréttum í dag.

Það hefur verið of langt gengið í niðurskurði gagnvart RÚV á undanförnum misserum og ég mun standa fast í fæturnar og gegn öllum áformum um frekari niðurskurð. Slíkt væri algerlega ótækt.

Hvernig á að rétta af hallann á rekstri Ríkisútvarpsins af án þess að skera niður kostnað með einhverjum hætti? Húsnæði, launakostnað, rafmagn og hita.

Starfsmenn Ríkisútvarpsins mega heldur ekki gleyma því að stór hluti tekna Ríkisútvarpsins er tekinn af almenningi með valdi. Það er ekkert „algerlega ótækt“ við að dregið sé úr þeirri skattheimtu.

Raunar ætti það að vera keppikefli útvarpsstjóra að lækka árlega þann kostnað sem almenningur hefur af stofnuninni sem honum hefur verið treyst fyrir.