Helgarsprokið 16. mars 2014

Vefþjóðviljinn 75. tbl. 18. árg.

Fréttir af því að mál vegna meints harðræðis gegn börnum á leikskóla í Vesturbæ Reykjavíkur hafi verið fellt niður vekja upp að minnsta kosti tvær spurningar.

Annars vegar blasir við sú spurning hvort yfirvöld hafi farið offari gegn skólanum. Í viðtali við Vísi í gær segir eigandi skólans svo frá:

Strax sama kvöld og málið kemur fyrst upp hefur Barnaverndarnefnd samband við alla foreldra skólans og tilkynnir þeim að meint harðræði hafi átt sér stað í skólanum og að af því séu til myndbönd. Þau nafngreina líka starfsmennina sem um ræðir sem mér finnst vera ámælisvert. Ég var alveg hörð á því að þetta mál færi í rannsókn, annað hefði ekki komið til greina. Mér fannst svo vitlaust staðið að þessarri rannsókn.

Hún bætir svo við:

Barnavernd leggur svo til að foreldrar mæti ekki með börnin sín í leikskólann, og að sjálfsögðu gera foreldrar það ekki. Ég skil það vel. En þar með var traustið farið og enginn grundvöllur fyrir starfseminni áfram.

Þegar til eru myndbönd af meintu harðræði og meintir ofbeldismenn þekktir hefði barnaverndarnefnd ekki getað gengið fram með hófstilltari hætti? Var nauðsynlegt að ganga fram af svo mikilli hörku að skólinn ætti ekki annan kost en að hætta starfsemi fyrir fullt og allt? Til að mynda með því að gera þá kröfu að viðkomandi starfsmenn færu í leyfi á meðan komist væri til botns í málinu?

Hin spurningin sem vaknar óhjákvæmilega er hvort barnaverndaryfirvöld í borginni hefðu gengið jafn hart fram gegn leikskóla í eigu borgarinnar og hér var gert?