Miðvikudagur 12. mars 2014

Vefþjóðviljinn 71. tbl. 18. árg.

Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa lengi boðið sérvöldu fólki að flytja pistla að eigin vali yfir hlustendum. Þeir pistlahöfundar virðast flestir valdir með með hefðbundinni Efstaleitisaðferð. Fyrir nokkru voru til dæmis reglulegir pistlar frá rithöfundum og mátti þar oft heyra mjög harðar árásir á Framsóknarflokkinn og einstaka forystumenn hans, en minna mun hafa verið um gagnstæð sjónarmið.

Auðvitað er í slíkum pistlum fjallað um margt fleira en daglega stjórnmálabaráttu og sjálfsagt yrðu einhverjir pistlahöfundar hissa ef þeir heyrðu efast um hlutlægni sína. En það breytir ekki því að flestir tala þeir út frá eigin gildismati og viðhorfum og þess vegna mikilvægt, eigi slíkir pistlar að vera á dagskrá Ríkisútvarps, að höfundar komi úr ólíkum áttum.

Í gær flutti Berglind María Tómasdóttir pistil í Ríkisútvarpið og fjallaði þar um nýlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að ríkið styrkti upptöku á flutningi nýrrar íslenskrar óperu. Berglind María telur þessa ákvörðun vera eins og blauta tusku í andlitið.

Ekki kvartar Vefþjóðviljinn yfir því að fólk mótmæli ríkisútgjöldum og þessi styrkur er ekki síður fráleitur en aðrir. En reiði pistlahöfundarins var ekki vegna ríkisútgjaldanna. Reiðin var vegna þess hver ákvað að veita styrkinn. Berglind María hafði nefnilega séð að Sigmundur Davið Gunnlaugsson hefði lagt þetta til á ríkisstjórnarfundi og þar hefði tillagan verið samþykkt. Það fannst henni mjög ófaglegt og minna á „tilburði í ríkjum sem við teljum okkur ekki eiga margt sammerkt með.“

Sjálf hefði Berglind María hins vegar unnið „svokölluð trúnaðarstörf fyrir hönd tónlistarmanna. Í ljósi sérfræðikunnáttu hefur mér verið treyst fyrir útdeilingu opinberra fjármuna til handa listamönnum“, segir hún og rekur svo nokkur dæmi um reynslu sína á þessu sviði. En „svo kemur bara Sigmundur Davíð og skellir nokkrum millum hingað og þangað, svona eftir ég veit ekki alveg hverju en kannski þó vægi listar út frá þjóðmenningarlega kvarðanum. Og hvað er nú það? Hver er nú aftur þessi þjóðmenning?“

Þetta er það sem henni finnst athugavert við málið. Það var ekki staðið nægilega „faglega“ að því að veita styrkinn. Í staðinn fyrir að þrautreyndur einstaklingur úr menningarkreðsunum tæki faglega ákvörðun um „útdeilingu opinberra fjármuna til handa listamönnum“, þá kom tillagan hreinlega frá þessum Sigmundi og það á ríkisstjórnarfundi.

Auðvitað vill Vefþjóðviljinn spara á þessu sviði eins og öðrum. En ef á annað borð á að deila út opinberum fjármunum, hver hefur þá meira umboð til þess en ríkisstjórn landsins í samræmi við fjárlög? Mönnum getur fundist hvað sem er um Sigmund Davíð Gunnlaugsson eins og aðra stjórnmálamenn, en hann styður völd sín við lýðræðislegan þingmeirihluta. Hver kaus Berglindi Maríu og alla hina fagmennina sem vilja einir fá að útdeila opinberum fjármunum til listamanna?

Skattgreiðandi sem er óánægður með ákvarðanir Berglindar Maríu og félaga, hvern á hann að hætta að kjósa, ef hann vill gera breytingar?
Ríkið á að skipta sér af sem fæstu og láta peninga borgaranna sem mest í friði. En ef ríkið ætlar sér að eyða peningum, þá eiga menn með lýðræðislegt umboð að ráða þar sem mestu, en ókjörnir fulltrúar hagsmunahópa sem minnstu. Hversu faglegir sem þeir eru.