Vefþjóðviljinn 70. tbl. 18. árg.
Það er skiljanlegt að stjórnarandstaðan, með dyggri aðstoð fréttamanna, hagi sér eins og hún gerir í ESB-málinu. Stjórnarflokkarnir láta hana komast upp með það. Þegar stjórnarflokkar fela stjórnarandstöðunni leikstjórnina og taka bara því sem stjórnarandstaðan réttir þeim hverju sinni, þá þiggur stjórnarandstaða það auðvitað. Og ef stjórnarandstaða finnur að þeir, sem eiga að stýra þinginu fyrir stjórnina, missa strax kjarkinn þegar á reynir, þá gengur hún á lagið hvenær sem henni sýnist.
En á þessu máli er sáraeinföld lausn sem ríkisstjórnin hlýtur að fara að hugleiða:
Ríkisstjórnin er varla bundin af þingsályktunartillögu sem samþykkt var sumarið 2009 um inngöngubeiðni í Evrópusambandið. Þingsályktun er einfaldlega yfirlýsing um vilja þess Alþingis sem gerir ályktunina, en ekki um neitt annað. Það er auðvitað ekki þannig að allar þingsályktanir síðustu aldar séu „í gildi“, eins og sumir virðast halda um þessa einu frá sumrinu 2009. Og nú hefur nýtt þing verið kosið og ríkisstjórnin styðst við stóran meirihluta alþingis. Ríkisstjórninni er væntanlega heimilt að afturkalla inngöngubeiðnina án þess að ný þingsályktun verði gerð þótt það geti verið betri bragur á því að fá fram stuðning þingsins við nýja ályktun.
Ríkisstjórnin ákvað að leggja fram þingsályktunartillögu, og gefa þannig stjórnarandstöðunni færi á þingumræðu um málið. Ef ljóst er að stjórnarandstaðan þiggur ekki það boð, svo sem með því að ræða fundarstjórn forseta í marga daga til að hindra að þingsályktunartillagan fáist rædd, þá er í sjálfu sér ekkert við því að segja.
Ríkisstjórnin getur einfaldlega sagt: Eftir tvær vikur tilkynnum við Evrópusambandinu að inngöngubeiðnin sé afturkölluð. Við gerum það hins vegar ekki ef þingsályktunartillagan verður felld áður. Kæra stjórnarandstaða, nú gefst ykkur færi á vandaðri þingumræðu um málið og getið þannig freistað þess að stöðva afturköllunina, ef meirihluti þingsins kýs að gera það. Ef þið hins vegar viljið ekki ræða þessa þingsályktun og ræðið bara fundarstjórn forseta næstu tvær vikur, þá er það ykkar val. Þið hafið tvær vikur.