Vefþjóðviljinn 69. tbl. 18. árg.
Það er óhætt að segja að tillögu Þorsteins Sæmundssonar, Frosta Sigurjónssonar og fleiri þingmanna Framsóknarflokksins um að ríkið fari af stað með áburðarverksmiðju hafi ekki verið tekið með húrrahrópum heldur hlátrasköllum.
Mönnum er þá ekki alls varnað, hugsaði Vefþjóðviljinn.
En svo áttaði hann sig á því að ekki var flissað mest vegna að það væri fjarstæðukennt að ríkið skipti sér af verksmiðjurekstri heldur vegna þess að það væri fyrir neðan virðingu „unga fólksins“ að vinna við áburðarframleiðslu. Það vildi auðvitað miklu frekar vinna í „skapandi greinum“ .
Kannski á það við um sumt ungt fólk. En svo er annað ungt fólk sem hefur áhuga á framleiðslu með vélum og látum. Ef að framtaksamir menn sæju möguleika í því að framleiða áburð hér á landi – án þátttöku ríkisins – væru störf við það eitthvað ósæmilegri en að bera filmubox og sódavatn á tökustað fyrir Tom Cruise sem ríkið niðurgreiðir með stórfé árlega? Eða búa upp rúm og skræla kartöflur í hinni margrómuðu ferðaþjónustu sem nýtur alls kyns skattfríðinda og leggst gegn því að landeigendur rukki ferðamenn fyrir átroðning?